Dæmdir fyrir kannabisræktun á Austurlandi

Frá Breiðdalsvík. Þar og í Fellabæ á Fljótdalshéraði stöðvaði lögreglan …
Frá Breiðdalsvík. Þar og í Fellabæ á Fljótdalshéraði stöðvaði lögreglan kannabisræktun mannanna tveggja í september í fyrra. mbl.is/Sigurður Bogi

Tveir menn voru dæmdir í tíu mánaða fangelsi í Héraðsdómi Austurlands um miðjan mánuð fyrir kannabisræktun og peningaþvætti. Átta mánuðir af dómum mannanna tveggja eru skilorðsbundnir og játuðu þeir brot sín. Ræktun þeirra fór fram í Fellabæ og á Breiðdalsvík, en var stöðvuð í aðgerðum lögreglu í september í fyrra.

Þá voru sambýliskonur mannanna handteknar ásamt þeim. Í öndverðu voru konurnar einnig ákærðar, en síðan var fallið frá ákæru á hendur þeim. Mennirnir játuðu að hafa staðið að ræktuninni um nokkurra missera skeið og að hafa selt afurðir sínar. Hagnaðinn sögðust þeir hafa notað í eigin þágu og til þess að greiða niður skuldir.

Nokkur hundruð þúsund krónur voru gerðar upptækar af bankareikningum í eigu mannanna eða sambýliskvenna þeirra, auk 133 kannabisplantna og nokkurs magns búnaðar til þess að rækta plönturnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert