„Ekki hugsað til höfuðs einum eða neinum“

„Ég hef heyrt í fólki og eðlilega eru skiptar skoðanir …
„Ég hef heyrt í fólki og eðlilega eru skiptar skoðanir eins og gengur,“ segir Kristján Þór Júlíusson um nýtt frumvarp sitt um lax- og silungaveiði. mbl.is/​Hari

„Þetta er ekki hugsað til höfuðs einum eða neinum heldur er hugsunin fyrst og fremst sú að styrkja minnihlutavernd í veiðifélögum. Það kann vel að vera að það séu einhverjar aðferðir betri eða verri, sem kunna að koma upp í meðferð þingsins. Ég á eftir að mæla fyrir málinu og hlakka til þeirrar umræðu sem þar verður tekin,“ segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um frumvarp sitt um breytingar á lögum um lax- og silungaveiði.

Í frumvarpinu er m.a. lagt til að staða smærri aðila í veiðifé­lög­um verði efld þannig að at­kvæðavægi aðila og tengdra aðila verði tak­markað við 30% og að farið verði fram á að 2/​3 at­kvæða allra fé­lags­manna þurfi til þess að samþykkt­ir séu lög­leg­ar eða þeim breytt.

Frumvarpinu er ætlað að koma í veg fyr­ir að einn aðili geti, í krafti eign­ar­halds síns á meiri­hluta laxveiðijarða inn­an veiðifé­lags, „drottnað yfir mál­efn­um veiðifé­laga“.

Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri veiðifélagsins Strengs — þar sem breski auðmaðurinn Jim Ratcliffe er mikilli meirihlutastöðu — sagði við mbl.is í síðustu viku að það vekti upp ýmsar spurningar þegar réttindi þeirra sem skyldaðir væru til þess að vera í veiðifélögum væru takmörkuð með einhverjum hætti.

Ég hef heyrt í fólki og eðlilega eru skiptar skoðanir eins og gengur. Ég á von á því að þegar ég verð búinn að mæla fyrir málinu og það gengið til nefndar að þá muni nefndin kalla eftir þessum sjónarmiðum sem ég hef meðal annars heyrt í umræðunni eftir að málið kom fram, og það er bara hið besta mál,“ segir ráðherra um málið.

 

Selá í Vopnafirði.
Selá í Vopnafirði. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert