Hálkuvörnum Isavia ekki ábótavant

Tveimur flugvélum Icelandair sem komu frá Seattle í gærmorgun var …
Tveimur flugvélum Icelandair sem komu frá Seattle í gærmorgun var beint til Akureyrarflugvallar. Frá Akureyrarflugvelli í gærmorgun. Ljósmynd/Isavia

„Hálkuvörnum er almennt mjög vel sinnt hjá Isavia og mikil þekking hjá okkar flugvallarstarfsmönnum við að ná upp sem bestu bremsuskilyrðum. Við notum sand til hálkuvarna og afísingarefni við erfiðustu aðstæður. Það er nauðsynlegt að hafa flugvelli tiltæka á öðrum veðursvæðum heldur en á suðvesturhorninu í svona tilvikum.“

Þetta kemur fram í skriflegu svari Sigrúnar Björk Jakobsdóttur, framkvæmdastjóra flugvallasviðs Isavia, til mbl.is vegna fyrirspurnar fréttastofu um neyðarástandið sem lýst var yfir af flugmanni Icelandair sem var að koma inn til lendingar á Keflavíkurflugvelli í gær.

Tveggja manna flug­vél hafði komið inn til lend­ing­ar á Kefla­vík­ur­flug­velli um 6-leytið, runnið út af flug­braut­inni og hafnað í kanti við enda henn­ar. Hin flug­braut Kefla­vík­ur­flug­vall­ar var lokuð tíma­bundið vegna ís­ing­ar og því átti að senda flugvél Icelandair á Reykjavíkurflugvöll sem var varaflugvöllur í flugáætlun en lendingarskilyrði voru ekki góð, vegna hálku, og mat flugstjórinn það svo að það væri öruggara að lenda á Keflavíkurflugvelli.

Fréttastofa beindi þeirri spurningu til Isavia hvernig stæði á því að varaflugvöllurinn hefði ekki verið nothæfur þegar vélin frá Seattle var á leið inn til lendingar. Hvort að Isavia sem rekstraraðili flugvallarins beri ekki skylda til þess að varaflugvellir séu nothæfir ef neyðarástand kemur upp skömmu fyrir lendingu.

Aðstæður erfiðar í Reykjavík eins og í Keflavík

„Aðstæður í Reykjavík voru erfiðar að morgni mánudagsins 28. október rétt eins og í Keflavík, mikil hálka á braut, úrkoma og frost. Þrátt fyrir hálkuvarnir og sand sem var dreift á flugbrautir aðfaranótt mánudagsins var erfitt að ná upp góðum bremsuskilyrðum fyrr en fór að birta,“ segir Sigrún og bætir því við að þetta hafi verið þær upplýsingar sem gefnar hafi verið upp frá vaktinni á Reykjavíkurflugvelli en það sé alltaf ákvörðun flugstjórans að ákveða hvar hann lendir vél sinni miðað við uppgefin skilyrði.

„Við gerð flugáætlunar skrá viðkomandi flugfélög varaflugvöll fyrir viðkomandi flugvélar í áætlun hennar, en flugvöllur fær ekki upplýsingar um það fyrr en að beiðni kemur frá flugumsjón í Keflavík eða frá flugstjórnarmiðstöðinni. Um leið og upplýsingar berast um komu væntanlegrar flugvélar hefst tilheyrandi undirbúningur á viðkomandi flugvelli,“ útskýrir hún og heldur áfram.

Reykjavíkurflugvöllur lokaður milli 23 og 7

„Hvað Reykjavíkurflugvöll varðar þá var hann lokaður þegar atvikið verð að morgni mánudagsins. Völlurinn er lokaður fyrir allri umferð frá kl. 23 að kvöldi til kl. 7 að morgni alla virka daga og frá kl. 23 að kvöldi til kl. 8 að morgni um helgar samkvæmt starfsleyfi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar.“

Reykjavíkurflugvöllur sé aðeins opnaður sérstaklega utan hefðbundins opnunartíma fyrir sjúkra- og neyðarflug, flug Landhelgisgæslu Íslands, millilandaflug þegar flugvöllurinn er varaflugvöllur, lendingar áætlunarflugs sem hefur orðið fyrir ófyrirséðum töfum og flugs vegna mannúðarmála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert