„Tölum hér af biturri eigin reynslu“

Fimm dóm­ar­ar í Hæsta­rétti komust í september 2018 að þeirri …
Fimm dóm­ar­ar í Hæsta­rétti komust í september 2018 að þeirri niður­stöðu að sýkna bæri Kristján Viðar Júlí­us­son, Sæv­ar Marinó Ciesi­elski, Tryggva Rún­ar Leifs­son, Al­bert Kla­hn Skafta­son og Guðjón Skarp­héðins­son af öll­um sak­argift­um í Guðmund­ar- og Geirfinns­mál­inu. mbl.is/​Hari

Þremenningarnir sem sátu í gæsluvarðhaldi í 105 daga vegna rangra sakargifta í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu svokallaða fá ekki séð að unnt sé að fallast á bætur handa Kristjáni Viðari Viðarssyni og ættingjum Sævars Marinós Ciesielski þar sem ekki liggur annað fyrir en að þeir hafi verið dæmdir í einu lagi fyrir fjölda afbrota sem öll standa óhögguð frá dómi Hæstaréttar 22. febrúar 1980.

Þetta kemur fram í umsögn þeirra Magnúsar Leopoldssonar, Einars Gunnars Bollasonar og Valdimars Olsen, sem í málinu eru gjarnan kenndir við Klúbbinn, um frumvarp forsætisráðherra um heimild til að greiða bætur vegna sýknudóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

Þeir sættu allir gæsluvarðhaldi mánuðum saman vegna rangra sakargifta þeirra sýknuðu auk Erlu Bolladóttur, sem einnig hefur óskað eftir bótum vegna málsins, þrátt fyrir að dómur í hennar máli, vegna fjársvika og rangra sakargifta, standi óhaggaður.

Fjarstæða að lögreglumenn hafi stýrt frásögn Erlu

„Það hefur lengi verið skoðun okkar allra að refsing Erlu fyrir þau mannorðsmorð á okkur, sem bæði sakadómur og Hæstiréttur taldi sannað að hún hefði unnið, hafi verið væg. Allir höfum við mátt þola miklar hörmungar sem Erla var upphafsmaðurinn að,“ segir í umsögn þeirra Magúsar, Einars og Valdimars. Segja þeir jafnframt fjarstæðu að lögreglumennirnir hafi sagt Erlu að bera þá röngum sökum. Sjálfir hafi þeir aldrei orðið varir við slíkt, né heldur hafi lögreglumennirnir reynt að stýra þeirra frásöng meðan þeir sættu gæsluvarðhaldi.

Sævar Marinó og Kristján Viðar voru eins og áður segir sýknaðir af manndrápum á þeim Geirfinni Einarssyni og Guðmundi Einarssyni. „Aðrar sakfellingar á öðrum afbrotum standa á hinn bóginn eftir óhaggaðar. Eru í þeim hópi ýmis brot, m. a. rangar sakargiftir.“

„Við undirritaðir fáum ekki séð að unnt sé að fallast á bætur þeim til handa þar sem ekki liggur annað íyrir en að þeir hafi verið dæmdir í einu lagi fyrir fjölda afbrota sem öll standa eftir óhögguð frá dómi Hæstaréttar 22. febrúar 1980.“

Sá sem beri aðra röngum sökum hafi eitthvað að fela

Þá greina þeir Magnús, Einar og Valdimar frá því að aldrei hafi þeim komið í hug að játa á sig afbrot sem þeir höfðu ekki framið og draga það í efa að fólk sé almennt tilbúið til slíkra falskra játninga þó það sitji í gæsluvarðhaldi. „Ólíkt ýmsum öðrum tölum við hér af biturri eigin reynslu sem er örugglega meira virði en hugmyndir sjálfskipaðra fræðimanna sem virðast geta dregið ályktanir af endurteknum lygum. Sá sem ber einhvern röngum sökum gerir það vegna þess að hann hefur eitthvað að fela.“

„Rétt þykir að taka fram að aldrei læddist sú hugmynd að nokkrum okkar að bera sakir á saklaust fólk um leið og við kepptumst við að sanna sakleysi okkar. Hver ætti að vera tilgangur slíks?„

„Lausnin á ráðgátunni um afdrif Geirfinns Einarssonar felast í hinum röngu sakargiftum svo og framburði Guðjóns Skarphéðinssonar, slíkt hlýtur að vera öllum hugsandi mönnum ljóst sem kynna sér dóm Hæstaréttar íslands frá 22. febrúar 1980. Það svarar um leið spurningunni hvað eigi að verða um frumvarp það sem birt er á þingskj. nr. 184.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert