Frumvarpið liður í yfirbót stjórnvalda

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Hari

„Frumvarpið er ekki nema þrjár greinar en tekur á stóru úrlausnarefni,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þegar hún mælti fyrir frumvarpi um greiðslu bóta vegna sýknu­dóms Hæsta­rétt­ar í Guðmund­ar- og Geirfinns­mál­inu á Alþingi nú undir kvöld.

Í grein­ar­gerð með frum­varp­inu seg­ir að í þeim viðræðum sem sett­ur rík­is­lögmaður hafi átt við aðila máls­ins hafi 700–800 millj­óna króna heild­ar­fjár­hæð verið rædd. Sú fjár­hæð kunni þó að taka ein­hverj­um breyt­ing­um eft­ir fram­gangi samn­ingaviðræðna. 

Katrín sagði að það væri hreint ekki óeðlilegt að Alþingi kæmi að þessu máli, í ljósi aðkomu Alþingis á fyrri stigum þess. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði að það væri óeðlilegt að umrætt mál væri tekið fyrir á Alþingi. 

Katrín sagði að frumvarpið væri liður í yfirbót stjórnvalda í tengslum við Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Hún bætti við að stjórnvöld hefðu beðið fyrrum sakborninga, aðstandendur þeirra og aðra sem hafa átt um sárt að binda vegna ranglætis afsökunar. Frumvarpið snúi fyrst og fremst að bótum þó ljóst sé að fjármunir muni aldrei geta bætt það ranglæti sem hinir sýknuðu urðu fyrir.

Eins og fram hefur komið í fréttum undanfarið hefur ekki tekist að semja um bótagreiðslur handa fyrrverandi sakborningum á vegum sáttanefndar. 

Meðal annarra þingmanna sem tóku til máls voru Helga Vala Helgadóttir Samfylkingunni og Brynjar Níelsson Sjálfstæðisflokknum. Helga Vala sagði að þegar væru til lög til þeirra sem sýknaðir eru í sakamálum.

Brynjar Níelsson spurði hvort ekki væri eðlilegt að ljúka málinu fyrir dómstólum. Hann sagðist vera sammála „einni setningu“ úr ræðu Helgu Völu, sem vakti kátínu viðstaddra í þingsal.

mbl.is