Tengja þurfi saman vellíðan og árangur

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra,
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, mbl.is/Hari

„Ég fagna þessari miklu umræðu um menntamál og þátttöku atvinnulífisins í því. Eitt af því sem einkennir framúrskarandi menntakerfi er mikil umræða um mikilvægi menntunar, þannig að ég er ánægð með framtak Samtaka atvinnulífsins.“

Þetta segir Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra í samtali við mbl.is innt eftir viðbrögðum við áherslum Samtaka atvinnulífsins í menntamálum sem kynntar voru í dag. Þar er meðal annars lögð áhersla á framhaldsskólanámi ljúki við 18 ára aldur, hvatt til aukins samstarfs á milli grunn- og framhaldsskóla og aukins sjálfstæðis skóla.

Samfélagið verði allt að taka þátt

„Það er margt gert mjög vel í íslensku menntakerfi, til að mynda þá líður börnunum okkar vel eða um 90% og 80% bera mikið traust til kennarans. Hins vegar höfum við verið að dragast aftur í alþjóðlegum samanburði og það er óásættanlegt fyrir þjóð sem er jafn rík að mannauði og þar sem hagsæld er jafnmikil og raun ber vitni.“

Menntamálaráðherra segir að mestu máli skipti á komandi árum að ...
Menntamálaráðherra segir að mestu máli skipti á komandi árum að menntakerfið sé í fremstu röð til að geta tekið á móti þeim tækifærum sem felist í tæknibyltingunni. mbl.is/Eggert

Það sem þurfi að gera sé að tengja saman vellíðan og árangur. „Við getum náð framúrskarandi árangri í menntakerfinu en til þess að það náist þarf allt samfélagið að taka þátt í því. Hér þarf að styrkja námsgögn, betri endurgjöf kerfisins, fara meira á dýptina, fjölga íslensku- og raunvísindakennurum, breyta fjárveitingum til menntamála – þannig að meiru sé varið á fyrstu æviárum barnsins, því það styrkir námsmanninn þegar fram í sækir,“ segir Lilja.

Þegar hafi verið farið í umtalsverðar kerfisbreytingar með því að styrkja stöðu kennarans með því að hann geti kennt á þremur skólastigum og Ísland muni ná OECD-meðaltali fjárframlaga á háskólastiginu. Þá hafi áhuginn á kennaranámi stóraukist sem birst hafi í um 50% meiri aðsókn í Háskóla Íslands.

Forgangsmál að auka lesskilning

„Við ætlum að tryggja jafnræði til náms með því að gera menntakerfið okkar framúrskarandi fyrir árið 2030, það verður gert í gegnum allt samfélagið og þýðir að styðja verður betur við starfsumhverfi kennara á öllum skólastigum. Hugfarið er að allir skipta máli og allir geti lært,“ segir Lilja, Fara þurfi meira á dýptina og efla starfsþróun kennara.

„Mestu skiptir á komandi árum að menntakerfið okkar sé í fremstu röð til að geta tekið á móti þeim tækifærum sem felast í tæknibyltingunni. Vel læs þjóð getur það og því er forgangsmál hjá mér að aukum lesskilning. Afar ánægjulegt er því að sjá þessa miklu aukningu i útgáfu barnabókmennta eða um 47% á milli ára. Þetta skiptir bókaþjóðina miklu máli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina