Mánuðirnir fyrir dauðsfallið voru ómetanlegir

Ólöf Pétursdóttir kom á Grensásdeildina 2007 eftir að hafa fallið …
Ólöf Pétursdóttir kom á Grensásdeildina 2007 eftir að hafa fallið af hestbaki. Hún hlaut þar endurhæfingu og stuðning og fann að nýju ástríðu sína fyrir málaralist. Ljósmynd/Aðsend

Þó rúmur áratugur sé liðinn frá því að Ólöf Pétursdóttir, fyrrum dómstjóri Héraðsdóms Reykjaness, dvaldi á Grensásdeild Landspítala heldur fjölskylda hennar enn tengslum við starfið. Ólöf kom á deildina 2007 eftir að hafa fallið af hestbaki. Hún hlaut þar endurhæfingu og stuðning og fann að nýju ástríðu sína fyrir málaralist. Að þessu sinni málaði hún þó aðeins með munninum, enda lömuð fyrir neðan háls. 

Andlát hennar á deildinni, í mars 2008, var óvænt og sársaukafullt. Ingibjörg Friðriksdóttir, önnur dætra Ólafar, segir mánuðina á undan þó ómetanlega. Því mun allur ágóði af sölu tækifæriskorta með myndum Ólafar, á jólabasar Grensásdeildar sem haldinn verður í dag, renna óskiptur til hollvinafélags deildarinnar.

„Grensásdeild er ekki endastöð fyrir flesta heldur einmitt leiðin fram á við,” segir Ingibjörg.

 „Við hefðum ekki getað ímyndað okkur þá hamingju fyrirfram sem átti eftir að felast í jafnvel minnstu framförum. Þegar hún byrjaði að geta hreyft tærnar þýddi það að mænan var ekki í sundur. Þegar hún gat byrjað að hreyfa þumlana, þýddi það að fjölbreytilegri möguleikar í stýrikerfinu fyrir rafmagnshjólastól.”

Ingibjörgu Friðriksdóttur, dóttur Ólafar, finnst mikilvægt að halda minningu móður …
Ingibjörgu Friðriksdóttur, dóttur Ólafar, finnst mikilvægt að halda minningu móður sinnar á lofti og hefur hún hannað tækifæriskort með málverkum Ólafar sem seld verða á jólabasar Grensásdeildar í Bústaðakirkju í dag. Ljósmynd/Aðsend

„Svo ég bara lá þarna á henni...”

Hjólastólavalið gekk reyndar heldur brösuglega í fyrstu. Ingibjörg fær ekki varist glotti þegar hún minnist stólsins sem mamma hennar átti að stýra með blæstri; blása laust til að beygja til vinstri, aðeins fastar til að fara beint áfram. 

„Ég stóð þarna fyrir framan hana að reyna að segja henni til en það fór ekki betur en svo að hún keyrði á mig og festi mig upp við vegg,” segir hún hlæjandi. „Svo ég bara lá þarna á henni af því að hvorug okkar vissi hvernig átti að fara aftur á bak.”

Þegar Ingibjörg var laus úr prísundinni fór mamma hennar fram á að vera tekin úr stólnum svo Ingibjörg gæti fengið að reyna hann sjálf. Ingibjörg þóttist nefnilega viss um að Ólöf væri bara að vera örlítið tækniheft eins og gengur og gerist hjá eldri kynslóðum en Ólöf vildi sanna að vandinn væri í raun árin, ekki ræðarinn. 

„Og það reyndist bara rétt! Að vera með smá blástur til vinstri og aðeins meiri beint áfram er bara ekki góð hönnun á hjólastól.”

Mikið traust og hlýja

Árlegur jólabasar Grensásdeildar er um margt eins og árshátíð velunnara hennar, sem fjölmenna og skapa góða stemningu. Hljómsveitin Strá-Kurr, skipuð læknum og hjúkrunarfræðingum, hefur æft stíft og mun troða upp nokkrum sinnum yfir daginn. Í boði verða vöfflur, kakó og kaffi sem og glæsilegar tertur og fersk brauð sem hægt er að kippa með sér heim. Eins hafa ýmis fyrirtæki gefið veglega vinninga og eru kaup á happdrættismiðum sérlega vinsæl leið til að styðja við hollvinasamtökin.

Kortin sem skarta myndum Ólafar, sem hún málaði með munninum, …
Kortin sem skarta myndum Ólafar, sem hún málaði með munninum, henta vissulega vel með jólapökkunum en eru þó hugsuð fyrir öll tækifæri. Ljósmynd/Aðsend

„Það ríkir mikið traust og hlýja milli hollvinanna og Grensásdeildar,” segir Ingibjörg og bætir því við að mikilvægt sé að samtökin geti brugðist hratt við þegar vantar tæki eða búnað á deildina. „Þau leitast við að afgreiða slíkar óskir samdægurs.”

Kortin sem skarta myndum Ólafar henta vissulega vel með jólapökkunum en eru þó hugsuð fyrir öll tækifæri.

„Þegar mamma dó var mikilvægt fyrir okkur að fagna henni svo við settum upp sýningu á myndunum hennar í erfidrykkjunni,” segir Ingibjörg. „Myndirnar hafa haldið áfram að vekja athygli eftir hennar dag og því ákvað ég að hanna þessi kort. Mér er mikilvægt að halda minningu hennar á lofti og mamma lifir enn í listinni.”

Jólabasar Grensásdeildar er haldinn í Bústaðakirkju frá 13 til 17 í dag en fyrirtæki og einstaklingar geta einnig nálgast kortin utan basarsins í gegnum Facebook-síðu Hollvina Grensásdeildar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert