18 mánuðir fyrir hrottalega árás á Akureyri

Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Norðurlands eystra.
Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Norðurlands eystra. mbl.is/Hanna

Landsréttur hefur staðfest 18 mánaða fangelsisdóm yfir Magnúsi Norðquist Þóroddssyni fyrir líkamsárás og frelsissviptingu í apríl 2016. Var Magnús fundinn sekur um að hafa veist að öðrum manni með ofbeldi, dregið hann upp úr heitum potti og á sólpall þar sem hann sneri manninn niður í glerbrot og lamdi hann ítrekað í andlitið.

Þá var hann jafnframt fundinn sekur um að hafa í félagi við tvo aðra menn svipt fórnarlambið frelsi sínu með því að hafa flutt manninn rænulausan frá Giljahverfi á Akureyri upp að Fálkafelli, fyrir ofan Akureyri, þar sem hann var beittur enn frekara ofbeldi. Kemur fram í dóminum að meðal annars hafi verið sparkað eða trampað á höfði hans. Var fórnarlambið svo skilið eftir meðvitundarlaust og mikið slasað við Fálkafell, en fyrir tilviljun kom vegfarandi að manninum nokkrum klukkustundum síðar. Var fórnarlambið þá meðal annars með sjá­an­legt skóf­ar á enni, brot­inn úlnlið og yf­ir­borðsáverka og bólg­ur á öll­um út­lim­um og and­liti.

Fyrir Landsrétti krafðist Magnús frávísunar á þeim forsendum að verknaðarlýsing ákærunnar hefði verið ófullnægjandi og ekki gerð nægjanleg grein fyrir því hvernig hann olli áverkum á þeim sem ráðist var á. Landsréttur hafnaði þessum málflutningi og vísaði til þess að í ákærunni væri tilgreint hvar og hvenær brotin hafi átt sér stað og lýst í smáatriðum háttseminni sem Magnúsi var gefin að sök.

Sem fyrr segir var 18 mánaða fangelsisdómur Magnúsar frá héraði staðfestur, auk þess sem honum var gert að greiða allan áfrýjunarkostnað og málskostnað fórnarlambsins fyrir Landsrétti. Áður hafði hann verið dæmdur til að greiða fórnarlambinu eina milljón í skaðabætur auk rúmlega 2 milljóna í sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert