Hefði þýtt að Icesave-málið hefði tapast

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert

Tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar verður ekki tekin upp á Íslandi nema tryggt verði að ekki verði ríkisábyrgð á innistæðum. Þetta sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra á fundi EES-ráðsins í Brussel í dag.

Meðal annars var rætt um framtíð innri markaðarins á fundinum en EES-ráðið er skipað utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna innan EES og fulltrúum framkvæmdastjórnar og ráðherraráðs Evrópusambandsins. Guðlaugur Þór sagði að Íslendingar væru reiðubúnir til þess að leggja sitt af mörkum til þess að umgjörð og leikreglur innri markaðarins virkuðu enda væri þýðing hans fyrir hagsmuni EFTA-ríkjanna innan EES afar mikil.

„Ég hef sagt það áður og ítreka það nú að ég mun sem utanríkisráðherra Íslands aldrei standa að því að Ísland samþykki á vettvangi EES samstarfsins upptöku og innleiðingu þessarar löggjafar þannig að hún feli í sér ríkisábyrgð á bankainnistæður. Hefði slík löggjöf verið í gildi á sínum tíma hefði Icesave-málið tapast fyrir dómstólum. Lærdómur sögunnar er þannig skýr,“ er haft eftir utanríkisráðherra í fréttatilkynningu.

Ráðherrann sagði standa upp úr hversu vel EES-samningurinn hefði reynst báðum aðilum og þeirri staðreynd þyrfti stöðugt að halda á lofti. Guðlaugur Þór sagði ennfremur að mikilvægt væri að hafa í huga ávinninginn af tveggja stoða kerfi EES-samningsins þegar framþróun innri markaðarins væri annars vegar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert