Fjögur ár fyrir nauðgun, líkamsárás og þjófnaði

Maðurinn á langan sakaferil að baki, allt frá árinu 1987. …
Maðurinn á langan sakaferil að baki, allt frá árinu 1987. Hann hefur hlotið 15 refsidóma, þar af tvo á Spáni, einn árið 2017 fyrir heimilisofbeldi og líkamsmeiðingar, ofbeldi í fjölskyldu og þvingun og annan á síðasta fyrir eignaspjöll. mbl.is/Hanna

Landsréttur staðfesti í dag fjögurra ára dóm yfir karlmanni fyrir nauðgun, líkamsárás og þrjú þjófnaðarbrot. Maðurinn nauðgaði kunningjakonu sinni á ofbeldisfullan hátt í desember árið 2015 og stal síðan farsíma hennar.

Fyrr á því ári hafði hann einnig ráðist á aðra konu, þáverandi unnustu sína, slegið hana og skallað, dregið hana til á hárinu og sparkað í hana. Hann var svo sakfelldur fyrir tvö þjófnaðarbrot til viðbótar.

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm í málinu 30. nóvember í fyrra og var maðurinn þar dæmdur í fjögurra ára fangelsi sem Landsréttur hefur nú staðfest, en ríkissaksóknari áfrýjaði málinu og fór fram á að manninum yrði gerð þyngri refsing fyrir brot sín.

Frá dómnum dregst fimm daga gæsluvarðhald sem maðurinn sætti hér á landi eftir að hann réðist á unnustu sína sumarið 2015 og fangelsidvöl mannsins á Spáni, en þar sat hann frá 30. október 2017 til 17. maí 2018 á meðan íslensk yfirvöld unnu í því að fá hann framseldan hingað vegna glæpa sinna.

Héraðsdómur dæmdi konunum tveimur miskabætur. Maðurinn var dæmdur til að greiða konunni sem hann nauðgaði tvær milljónir króna og sú ákvörðun stendur í dómi Landsréttar, en miskabætur til fyrrverandi unnustu hans voru hækkaðar upp í eina milljón með dómi Landsréttar, en héraðsdómur hafði ákvarðað henni 700.000 krónur í bætur.

Nauðgaði kunningjakonu sem aumkaði sig yfir hann

Maðurinn á langan sakaferil að baki, allt frá árinu 1987. Hann hefur hlotið 15 refsidóma, þar af tvo á Spáni, einn árið 2017 fyrir heimilisofbeldi og líkamsmeiðingar, ofbeldi í fjölskyldu og þvingun og annan á síðasta fyrir eignaspjöll.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að maðurinn hafi nauðgað kunningjakonu sinni eftir að hún aumkaði sig yfir hann vegna einhverra mála sem tengdust syni mannsins. Hún sagði frá því fyrir dómi að maðurin hefði grátið og borið sig aumlega og hún „fundið til með honum, faðmað hann og boðið honum heim til sín til að borða og spjalla.“

Þau drukku bjór og neyttu einnig amfetamíns saman, hún einu sinni, en hann oftar. Konan segir manninn svo hafa nauðgað henni seint um nóttina, eftir að hafa ítrekað lýst því yfir hvað honum langaði til að kyssa hana. Maðurinn ýtti henni í jörðina og „geðveiki“ kom í andlit hans áður en hann braut á henni, að sögn konunnar.

Konan sagði fyrir héraðsdómi að eftir að maðurinn braut á henni hafi hann staðið á fætur og sagt við hana „sérðu hvað þú lést mig gera, þú áttir ekki að vera að ögra mér svona“.

Síðan stal hann af henni 6.000 krónum fyrir leigubíl – og símanum hennar líka.

Dómur Landsréttar í málinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert