Loftslagssjóður úthlutar 500 milljónum á fimm árum

Sjóðurinn heyrir undir Guðmund Inga Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, en …
Sjóðurinn heyrir undir Guðmund Inga Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, en Rannís hefur umsjón með sjóðnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórnvöld verja um 500 milljónum króna til nýs Loftslagssjóðs á fimm árum. Þar af verða 140 milljónir króna til ráðstöfunar í fyrstu úthlutun. Þetta kom fram á fundi í Norræna húsinu í hádeginu, þar sem sjóðurinn var kynntur. Opnað er fyrir umsóknir í dag og öllum er heimilt að sækja um.

„Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að stjórnvöld leggi fjármagn inn í svona verkefni sem geta orðið að risastórum verkefnum í framtíðinni. Þannig að ég er ofboðslega kátur í dag, glaður og brosi,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, í ávarpi sínu á fundinum.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2019/11/28/loftsslagssjodur_kynntur_a_fundi_beint_streymi/

Sjóðurinn er samkeppnissjóður sem heyrir undir ráðherra og hefur falið Rannís umsjón með honum. Hægt er að sækja um að fá styrki úr fyrstu úthlutun sjóðsins til 20. janúar næstkomandi.

Kynningar- og fræðsluverkefni eða nýsköpunarverkefni

Á fundinum var farið yfir áherslur stjórnar Loftslagssjóðs fyrir fyrstu úthlutun, sem og umsóknarferlið. Boðið er upp á tvær styrktegundir og eru styrkir veittir til eins árs.

Annars vegar er um að ræða styrki til kynningar og fræðslu um loftslagsmál og getur styrkupphæð verið allt að 5 milljónir króna. Hins vegar er um að ræða styrki til nýsköpunarverkefna en þeim er m.a. ætlað að styrkja rannsóknir og þróunarstarf í tengslum við innleiðingu á nýjum loftslagsvænum tæknilausnum og hönnun. Nýsköpunarstyrkir geta verið allt 10 milljónir króna og numið allt að 80% af kostnaði verkefnis.

Stjórn Loftslagssjóðs skipar fagráð sem metur styrkhæfi umsókna. Meðal þess sem haft verður til hliðsjónar eru jákvæð áhrif verkefnisins á loftslag, hvort það hafi jákvæð samfélagsleg áhrif, nýnæmi verkefnisins og hvort það muni nýtast víða í samfélaginu.

mbl.is

Bloggað um fréttina