Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna hafin

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna hófst í Madríd í dag.
Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna hófst í Madríd í dag. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Íslensk sendinefnd er komin til Madrídar á Spáni þar sem 25. ráðstefna aðildarríkja Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP25) var sett í dag.


Meginverkefni fundarins er að ljúka við regluverk um innleiðingu Parísarsamningsins, en þar ber hæst reglur varðandi 6. grein Parísarsamningsins um samvinnu ríkja um losunarmarkmið, auk tæknilegrar vinnu varðandi bókhald og skýrslugjöf. Jafnframt verður á fundinum fjallað um málefni frumbyggja í samhengi við loftslagsbreytingar og aðlögun að loftslagsbreytingum.

Málefni hafsins verða einnig ofarlega á blaði, en formennska í viðræðunum er nú í höndum Síle, sem hefur sett sérstaka áherslu á málefni hafsins í loftslagsumræðunni. Til stóð að halda ráðstefnuna í Santiago í Síle, en hætt var við það vegna óeirða þar og fundurinn fluttur til Madrídar. Formennska er eftir sem áður í höndum Síle.

Ráðherravika fundarins hefst næstkomandi mánudag og mun Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sækja fundinn fyrir Íslands hönd, að því er fram kemur í tilkynningu frá Stjórnarráðinu

Frá upphafi ráðstefnunnar í dag. Fráfarandi forseti Loftslagsráðstefnunnar, Michał Kurtyka …
Frá upphafi ráðstefnunnar í dag. Fráfarandi forseti Loftslagsráðstefnunnar, Michał Kurtyka frá Póllandi, flytur lokaræðu sína og afhendir Carolina Schmidt frá Síle stjórnartaumana. Ljósmynd/Stjórnarráðið
mbl.is

Bloggað um fréttina