Jólastjörnurnar blómstra

Blómabóndinn Birgir S. Birgisson hér með litríkar stjörnur í gulum …
Blómabóndinn Birgir S. Birgisson hér með litríkar stjörnur í gulum bjarma lampanna í gróðurhúsinu. mbl.is/Sigurður Bogi

Þessa dagana er litadýrðin ráðandi í gróðurhúsum Birgis S. Birgissonar í Hveragerði. Ræktun og framleiðsla á jólablómum er langt komin; nærri 9.000 jólastjörnur eru farnar út úr húsi og orðnar stáss og yndisauki á heimilum landsmanna. Flestar eru þær rauðar, en einnig má í flórunni finna hvítar og bleikar stjörnur.

Þá eru tegundirnar ástareldur og begoníur undir gleri og ljósum í Ficus, en svo heitir gróðrarstöð Birgis sem er við Bröttuhlíð í blómabænum sem svo er nefndur.

„Við byrjun í jólastjörnunum í júlí, þá fáum við hingað græðlinga með rótum frá Hollandi. Með þá er farið samkvæmt kúnstarinnar reglum varðandi hita, lýsingu og annað. Ræktunin núna gekk alveg ljómandi vel og að undanförnu er ég búinn að senda frá mér um það bil 9.000 jólastjörnur en alls eru ræktuð á landinu fyrir hátíðina um 20.000 blóm. Síðan eru hýasinturnar hér í húsi líka komnar vel á legg og munu blómstra fallega,“ nefnir Birgir sem segir blómabúskap ganga ágætlega um þessar mundir.

„Á tímabili var naumhyggjan ráðandi og á heimilum átti allt að vera klippt og skorið, rétt eins og við sáum á myndum í blöðum eins og Húsum og híbýlum og hinu danska Bo Bedre. Núna eru stofublómin hins vegar aftur komin í tísku eins og við finnum vel í sölu hjá okkur. Núna er jólaframleiðslan raunar að mestu farin héðan úr húsi og veitir ekki af, því í næstu viku setjum við lauka að páskaliljunum í potta. Í blómarækt koma helstu hátíðir ársins snemma inn; jól í júlí og páskar í desember. Og sjálfum finnst mér alveg sjálfsagt að hafa blóm á heimilum, því þau framleiða súrefni og binda kolefni sem við þurfum svo mjög á að halda.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert