Íbúar beðnir um að spara jólaljósin

Skömmtunarsvæðið á Sauðárkróki.
Skömmtunarsvæðið á Sauðárkróki. Kort/Facebook-síða lögreglunnar

Lögreglan á Norðurlandi vestra hefur birt á Facebook-síðu sinni skömmtunaráætlun rafmagns frá RARIK fyrir Sauðárkrók.

„Minnum fólk á að fara sparlega með rafmagn, t.d. jólaljós og annað sem má bíða betri tíma. Höldum okkur heima enn um sinn,“ skrifar lögreglan.

Bilun hefur verið á rafmagnslínunni til Sauðárkróks og skammtað í bænum frá því óveðrið skall á í gær.

Á vefsíðu RARIK kemur fram að tvær varavélar séu keyrðar í bænum en virkjunin sem er staðsett þar er biluð. Þess vegna annar varaaflið bara hluta af bænum. Bilun á línunni hefur ekki fundist.

Rafmagnslaust hefur verið á Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði frá því í morgun þegar Dalvíkurlína fór út. Hún er illa farin og tekur nokkra daga að gera við hana.

Rafmagnslaust er á Grenivík og á Gálmaströnd, auk þess sem 10 til 15 rafmagnsstaurar eru brotnir norðan við Kópasker.

Einnig er enn rafmagnslaust í V-Húnavatnssýslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert