„Höfum við ekkert lært?“

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Eggert

„Hvernig má það vera að í lok árs 2019 sé þessi staða uppi?“ spurði Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins. Hann fjallaði um rafmagnsleysið á Norður- og Austurlandi eftir óveðrið sem gekk yfir landið á Alþingi í morgun.

Gunnar Bragi sagði að margir hefðu verið án rafmagns í nokkra sólarhringa og einhverjir væru enn án rafmagns. „Bændur hafa þurft að hella niður mjólk,“ sagði Gunnar Bragi og bætti við að sums staðar væri skortur á vörum í búðum. 

Hann spurði Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, hvernig það mætti vera að ekki sé til varaafl til að keyra helstu þéttbýlisstaði í gangi þegar rafmagn fer af. 

„Við höfum oft séð álíka veður og línur hafa áður slitnað. Höfum við ekkert lært?“ spurði Gunnar Bragi. Hann spurði enn fremur hvers vegna ríkisfyrirtækin Rarik og Landsnet hefðu ekki undirbúið sig betur.

Þingmaðurinn spurði einnig hvort ríkisstjórnin ætlaði að koma til móts við fyrirtæki og einstaklinga sem hefðu orðið fyrir tjóni sem tryggingar bæta ekki. 

„Hvenær býst ráðherra við að landsmenn verði búnir að fá rafmagn á ný?“

Þörf á frekari framkvæmdum

Þórdís Kolbrún sagði að flutnings- og dreifikerfið á Íslandi væri ekki nægilega sterkt og þörf væri á frekari framkvæmdum til að byggja það upp. 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ráðherra sagði að fyrirtækin Rarik og Landsnet þyrftu sjálf að svara fyrir hvernig þau undirbjuggu sig fyrir óveðrið. 

„Það er hægt að draga lærdóm af málinu og ríkisstjórn mun taka höndum saman til að hægt sé að fara í aðgerðir til að læra af þessu,“ sagði Þórdís Kolbrún. Ráðherra bætti því við að hún ætlaði ekki að fella neina áfellisdóma yfir þeim sem hefðu unnið hörðum höndum síðustu daga. 

mbl.is

Bloggað um fréttina