Aflýsa óvissustigi vegna aftakaveðurs

Ofsaveður gekk yfir landið í vikunni.
Ofsaveður gekk yfir landið í vikunni. mbl.is/Þorgeir

Ríkislögreglustjóri hefur ákveðið að aflýsa óvissustigi almannavarna vegna aftakaveðurs, sem lýst var yfir 9. desember. Ákvörðunin er tekin í samráði við lögreglustjóra landsins.

Hættustigi almannavarna fyrir Norðurland vestra, Norðurland eystra og Strandir er ekki aflýst að svo stöddu þar sem enn er verið að glíma við afleiðingar veðursins. Aðgerðastjórnir á Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra eru enn að störfum og samhæfa aðgerðir og sinna aðstoðarbeiðnum, að því er fram kemur á Facebook-síðu almannavarna.

Þar kemur enn fremur fram að allt kapp er lagt á að tryggja öryggi og heilsu íbúa og unnið er hörðum höndum við að koma fjarskiptum, samgöngum og rafmagni í samt lag.

Rafmagni hafi verið komið á með bráðabirgðaviðgerðum og víða er keyrt á varaafli en viðgerðir geta staðið í nokkra daga. Afhendingaröryggi er víða ótryggt og ljóst að mikið eignatjón hafi fylgt veðrinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert