Greiða bætur vegna rafmagnsleysis

Brotnir rafmagnsstaurar í Dalvíkurlínu. Rarik bætir notendum kostnað og tjón …
Brotnir rafmagnsstaurar í Dalvíkurlínu. Rarik bætir notendum kostnað og tjón vegna rafmagnsleysisins. mbl.is/Eggert

Rarik ætlar að koma til móts við þá viðskiptavini sína sem urðu fyrir kostnaði eða tjóni vegna rafmagnsleysis og spennusveiflna í illviðrinu sem brast á 10. desember. Þetta kemur fram á vef Rarik, þar sem viðskiptavinir geta fyllt út eyðublöð með umsókn um endurgreiðslu.

Samkvæmt svari frá Rarik er það ekki nýmæli að greiddar séu bætur vegna keyrslu varaaflsvéla. Það hefur áður verið gert þegar aðilar hafa framleitt raforku að beiðni Rarik, en vegna rafmagnsleysisins núna í óveðrinu þurfti víða að keyra varavélar. Nýtt eyðublað hefur verið sett í loftið á vef Rarik þar sem fólk getur gert grein fyrir kostnaði sínum.

„Það fer dálítið eftir aðstæðum hvernig varaaflskeyrsla er gerð upp. Sumir eiga eigin vélar, aðrir hafa fengið lánaðar vélar, ýmist frá RARIK, búnaðarsamböndum eða leigt þær af öðrum. Útlagður kostnaður viðskiptavina getur þannig verið mismikill. Almenna reglan er að við munum greiða fyrir olíuna sem notuð var til að framleiða á meðan rafmagnslaust var,“ segir Rósant Guðmundsson, kynningarstjóri Rarik í svari við fyrirspurn um áætlaðan kostnað Rarik vegna þessa.

„Við óskum eftir að notendur sendi okkur upplýsingar um þann kostnað sem þeir hafa orðið fyrir vegna varaaflskeyrslu, þannig að við getum yfirfarið það og afgreitt. RARIK þekkir nokkuð vel meðalnotkun sinna viðskiptavina yfir vetrardaga, þannig að áætluð orkuþörf er ágætlega þekkt. Því á ekki að vera vandamál að gera upp kostnað vegna keyrslunnar,“ segir Rósant.

Þá bætir Rarik tjón á rafbúnaði viðskiptavina sem verður vegna spennusveiflna í rafmagnstruflunum, venju samkvæmt.

„Mesta hættuástandið liðið hjá“

Á vef Rarik segir í nýrri tilkynningu að ísingarveðrið, sem gekk yfir Norðausturland og Austurland um helgina, sé nú yfirstaðið, en Rarik var með hæsta viðbúnaðarstig vegna veðursins.

„Þó að dreifikerfi RARIK sé nokkuð laskað eftir áraunir síðustu vikna, lítum við svo á að mesta hættuástandið sé liðið hjá,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is