Vegir lokaðir á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi

mbl.is/Hari

Vetrarfærð er um mestallt land. Vegir eru víða ófærir eða lokaðir á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Á Vesturlandi er slæmt ferðaveður og ófært er á sunnanverðu Snæfellsnesi, Svínadal og Laxárdalsheiði. Flughált er í Álftafirði. Vegurinn um Bröttubrekku er lokaður og eins Holtavörðuheiði.

Á Norðurlandi er slæmt ferðaveður á þeim vegum sem hafa verið hreinsaðir en fjallvegir eru lokaðir. Vegurinn um Vatnsskarð er lokaður. Sem og um Þverárfjall. Siglufjarðarvegur er lokaður vegna snjóflóðahættu og eins Ólafsfjarðarmúli. Öxnadalsheiði er lokuð og á Norðausturlandi eru fjallvegir víða ófærir eftir nóttina. Stórhríð og vegurinn um Vopnafjarðarheiði er ófær. Snjóþekja eða þæfingsfærð er á Austurlandi.

Líkt og fram hefur komið eru flestar leiðir á Vestfjörðum ófærar eða lokaðar vegna snjóflóðahættu. Skutulsfjarðarbraut er lokuð og verður athuguð um kl. 8:00. Vegurinn um Eyrarhlíð er lokaður og verður athugað kl.10:00. Flestar leiðir eru ófærar, þó er fært á Hálfdán og Mikladal. Vegurinn er lokaður um Þröskulda. Flateyrarvegur er lokaður vegna snjóflóðahættu. Vegurinn um Súðavíkurhlíð er lokaður vegna snjóflóðahættu. Vegurinn um Steingrímsfjarðarheiði er lokaður.

Hvasst er á Kjalarnesi og eru vegfarendur beðnir að fara varlega. Ófært er á Mosfellsheiði en flughálka á Kjósarskarðsvegi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert