Jarðskjálfti í Kötluöskjunni

Jarðskjálfti af stærð 2,8 varð klukkan 7:55 í sunnanverðri Kötluöskjunni. Að svo stöddu hafa engir eftirskjálftar mælst á svæðinu. 10. janúar varð einnig skjálfti af stærð 3,0 norðar í öskjunni.

Skjálftinn í morgun varð við einn af sigkötlunum í öskjunni, sem myndast vegna jarðhitavirkni undir jöklinum. Engar markverðar breytingar sjást á vatnshæðar- eða rafleiðnimælum í ám við Mýrdalsjökul. Þetta er fjórtándi skjálftinn sem er yfir tveimur að stærð á síðastliðnum 12 mánuðum í Mýrdalsjökli.

Um 300 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni sem leið, færri en vikuna áður þegar að þeir voru um 360 talsins. Tveir stærstu skjálftar vikunnar voru 4,5 að stærð staðsettir á Reykjaneshrygg um 70 km SV af Reykjanestá. Þeir voru hluti af skammvinnri hrinu sem varð þar 18. janúar. Í hrinunni mældust um 50 skjálftar, þar af einn skjálfti til viðbótar stærri en 4,0 og sjö skjálftar á milli 3 og 4 að stærð.

Jarðskjálfti af stærð 2,6 varð skammt SA af Hveragerði 15. janúar á sama svæði og nokkur virkni var á í vikunni á undan. Nokkrar tilkynningar bárust frá Hveragerði og Selfossi um að fólk hefði fundið skjálftann. Einn skjálfti af stærð 1,1 varð að kvöldi 19. janúar í Heklu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert