Lögregla seldi bifreið fulla af fíkniefnum

Hvorki meira né minna en 94.000 amfetamíntöflur fundust í stuðara …
Hvorki meira né minna en 94.000 amfetamíntöflur fundust í stuðara bílsins. AFP

Fíkniefnalögreglan í Taílandi hefur beðist afsökunar eftir að bifreið full af eiturlyfjum var seld á uppboði lögreglu. 

Kaupandi greiddi 586 þúsund baht fyrir bifreiðina, jafnvirði um það bil 2,3 milljóna íslenskra króna, en fékk heldur meira fyrir peninginn en hann átti von á. Eigandinn fór alsæll með nýju bifreiðina á verkstæði, þar sem 94.000 amfetamíntöflur fundust í stuðara hennar.

Taílenska lögreglan hefur heitið því að héðan af verði bifreiðar skoðaðar þeim mun betur áður en þær eru seldar á uppboði. 

Þegar bifreiðin var gerð upptæk af lögreglu á síðasta ári fundust um 100 þúsund amfetamíntöflur í aftursætinu. Lögregla taldi sig hafa leitað af sér allan grun um fleiri fíkniefni í bílnum, en í ljós kom að svo var heldur betur ekki.

Frétt BBC

mbl.is