Landris nálgast þrjá sentimetra

Á nokkrum stöðum í Eldvörpum á Reykjanesskaga kemur reykur upp …
Á nokkrum stöðum í Eldvörpum á Reykjanesskaga kemur reykur upp úr hrauninu, eins og um nýlegt hraun sé að ræða. Það er aftur á móti frá 13. öld. Ljósmyndin sem fylgir fréttinni er nokkurra ára gömul. Mynd/Ellert Grétarsson

Landrisið á Reykjanesskaga hefur haldið áfram í dag og er hraðinn sá sami og í gær samkvæmt mælingum og myndum.

„Þetta heldur bara áfram nákvæmlega eins og það var. Þetta er stöðug þensla og er þremur til fjórum millimetrum hærra síðan í gær. Þetta er að nálgast þrjá sentimetra,“ segir Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. 

Benedikt telur langlíklegast að kvikusöfnun valdi þessari þenslu. „Hvað það þýðir með atburðarásina á næstunni er mun óljósara. Við erum mjög líklega að horfa á langtímaferli en það er ekki útilokað að hlutir gerist snöggt.“

Mælitæki sett upp í dag og á morgun 

Starfsmenn Veðurstofunnar eru byrjaðir að setja upp mælitæki til að vakta og greina betur framvindu atburða. Bæði verða tækin sett upp í dag og á morgun. Nokkrir skjálftamælar verða settir upp, ásamt GPS-mælum. Eftir það verður skoðað hvort fleiri mælum verður bætt við.

Snemma í morgun höfðu tíu jarðskjálftar orðið á svæðinu frá því seint í gærkvöldi. Að sögn Benedikts hafa nokkrir skjálftar bæst við og er virknin svipuð og áður. „Hún er ekkert gríðarlega mikil en hún er til staðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert