Fullt út úr dyrum á samstöðufundi

Eftir fundinn var gengið niður í dómsmálaráðuneyti þar sem undirskriftalistar …
Eftir fundinn var gengið niður í dómsmálaráðuneyti þar sem undirskriftalistar voru afhentir. mbl.is/Helgi Snær

Fullt var út úr dyrum í Vesturbæjarskóla þegar samnemendur, foreldar, kennarar og aðrir velunnarar Muhameds Zohair Faisal og foreldra hans komu saman þar í dag og sýndu þeim samstöðu, en til stendur að vísa fjölskyldunni úr landi á morgun. Foreldar Muhameds, Faisal og Niha Khan eru frá Pakistan en flúðu þaðan því foreldrar Niha höfðu lofað hana mun eldri manni. 

Eftir fundinn hélt hópurinn niður í dómsmálaráðuneyti þar sem um 17 þúsund undirskriftir, gegn því að fjölskyldan verði flutt úr landi á morgun, voru afhentar.

Muhamed ásamt Illuga vini sínum.
Muhamed ásamt Illuga vini sínum. Ljósmynd/Aðsend

Fjölskyldan hefur dvalið á Íslandi í rúm tvö ár og aðlagast lífinu hér mjög vel. Sérstaklega Muhamed litli sem þekkir varla annað. Hann stundar nám í Vesturbæjarskóla, talar lýtalausa íslensku og þykir afburðanámsmaður. Hann er lífsglaður drengur sem á fjölda vina sem eiga erfitt með að skilja af hverju vinur þeirra þarf að fara frá Íslandi.

Fjölskyldan óskaði eftir alþjóðlegri vernd hér á landi í lok árs 2017 en beiðninni var hafnað og að öllu óbreyttu stendur til að flytja fjölskylduna úr landi á morgun.

Fyrr í vikunni var farið fram á endurupptöku málsins en ekki hefur verið fallist á að fresta brottflutningi fjölskyldunnar úr landi á meðan beiðni um endurupptöku er skoðuð af hálfu stjórnvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert