Upplifa mannlega reisn í tvo tíma

Sigþrúður Guðmundsdóttir segir að hún hafi haft það að markmiði …
Sigþrúður Guðmundsdóttir segir að hún hafi haft það að markmiði að gera sitt allra besta til að gera lífið bærilegra fyrir þær konur og börn sem komu til þeirra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Yfir 19 þúsund flóttamenn eru í Moria-flóttamannabúðunum á grísku eyjunni Lesbos en rými er fyrir 2.840 manns í búðunum. Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, tók þátt í sjálfboðaliðastarfi á eyjunni í janúar. Ástandið þar hefur versnað mjög á síðustu mánuðum vegna þess mikla fjölda sem kemur þangað yfir Eyjahafið frá Tyrklandi. Flestir eru frá Afganistan en einnig margir Írakar og Íranar. Fáir Sýrlendingar eru í búðunum um þessar mundir.

Varnargirðingin á landamærum Grikklands og Tyrklands í Evros.
Varnargirðingin á landamærum Grikklands og Tyrklands í Evros. Skjáskot af InfoMigrants

Grísk stjórnvöld greindu frá því fyrr í vikunni að þau væru að íhuga að setja upp fljótandi varnakerfi á Eyjahafi til að hindra flóttafólk í að komast til Grikklands frá Tyrklandi. 

Gríska varnarmálaráðuneytið hefur boðið út smíði og uppsetningu á 2,7 km girðingu eða neti sem á að setja upp við norðurströnd Lesbos. Varnargirðingin á að vera 110 cm há og ná 50 cm upp úr sjónum. Girðingin verður upplýst þannig að hún sé sjáanleg fólki sem kemur að næturlagi. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu er stefnt að því að lengja varnargirðinguna og setja upp víðar ef hún „gefur góða raun“.

Samkvæmt upplýsingum frá Flótta­manna­stofn­un Sam­einuðu þjóðanna (UNHCR) hafa starfsmenn stofnunarinnar ekki séð áætlun grískra stjórnvalda en benda á að yfir 85% þeirra sem komu til Grikklands á síðasta ári falla undir flóttamannaskilgreiningu Sameinuðu þjóðanna. Ef auka eigi skipulag á landamærum eigi það að miða að því að veita fólki sem þarf á vernd að halda öruggt hæli.

Í ólífulundinum fyrir utan Moria-flóttamannabúðirnar á Lesbos.
Í ólífulundinum fyrir utan Moria-flóttamannabúðirnar á Lesbos. AFP

Varnarmálaráðherra Grikklands, Nikos Panagiotopoulos, segir í samtali við Skai-útvarpsstöðina að það eigi eftir að koma í ljós en ef girðingin virki eins og stefnt sé að verði unnið að því að koma slíkum vörnum víðar.

„Ef þetta virkar eins og sú í Evros getur þetta orðið árangursríkt,“ segir hann og vísar þar til hárrar gaddavírsgirðingar sem Grikkir settu upp árið 2012 við landamærin við Tyrkland í norðurhluta Grikklands. Sú girðing var sett upp til þess að koma í veg fyrir að flóttafólk kæmist þannig til landsins.

Hjálparsamtök benda aftur á móti á að slíkar varnargirðingar í Evrópu hafi ekki skilað árangri. Þess í stað væri nær að hraða ferlinu við afgreiðslu hælisumsókna. Í fyrra komu 59.726 flóttamenn og hælisleitendur sjóleiðina til Grikklands. Tæplega 80% þeirra komu til eyjanna Chios, Samos og Lesbos í Eyjahafi. Yfir 42 þúsund flóttamenn eru nú í flóttamannabúðunum sem eru hannaðar til að taka á móti alls 6.200 manns. Þar dvelur fólk við skelfilegar aðstæður, að því er fram kemur í skýrslum mannúðarsamtaka. 

Á ísköldum janúarmorgni í Moria.
Á ísköldum janúarmorgni í Moria. AFP

„Í sumar voru komnir um fimm þúsund flóttamenn í Moria-flóttamannabúðirnar sem þótti mikið en núna eru þeir um 19 þúsund,“ segir Sigþrúður og skýringin er meðal annars sú að ekkert hefur orðið af áætlunum grískra stjórnvalda að flytja um 20 þúsund manns frá eyjunum til meginlandsins. 

Einu stóru alþjóðlegu hjálparsamtökin sem eru starfandi inni í Moria-búðunum, Læknar án landamæra (Médecins Sans Frontières), hafa hvatt ríki Evrópu til að bregðast við ástandinu þar en undanfarna sex mánuði hefur íbúatalan hækka úr fimm þúsund í 19 þúsund. 40% þeirra eru yngri en 18 ára. Um 13 þúsund þeirra búa við skelfilegar aðstæður í segltjöldum, eða eins og Sigþrúður segir — útihátíðartjöldum. Ekkert rafmagn, ekki nóg vatn og í rigningu renna leðjulækir í gegnum tjöldin — heimili fólks. 

„Fólk er alls staðar,“ segir Sigþrúður og segir að búðirnar sem slíkar séu löngu sprungnar og tjaldbúðirnar flæði um svæðið í kring. Í Ólífulundinum, sem er svæðið fyrir utan búðirnar, er tjald við tjald.

Föt hengd upp til þerris í Moria í janúar.
Föt hengd upp til þerris í Moria í janúar. AFP

Sigþrúður hefur áður tekið þátt hjálparstarfi en hún hefur meðal annars starfað sem sjálfboðaliði í Palestínu og Venesúela. Hún er í fjögurra mánaða leyfi sem lýkur nú um helgina og ákvað að nýta hluta þess til þess að veita aðstoð á Lesbos þar sem hún dvaldi í tvær vikur í janúar. Þar var hún sjálfboðaliði hjá hollenskum mannúðarsamtökum sem nefnast ShowerPower sem hollensk systkini stofnuðu á sínum tíma. Samtökin eru ein þeirra 70 til 80 samtaka sem eru starfandi á Lesbos og helsta verkefni ShowerPower er að sækja hópa kvenna og barna sem búa í Moria og bjóða þeim í hús samtakanna þar sem þau fara í heita sturtu, fá heita máltíð og hrein föt.

99% barna í flóttamannabúðum á grísku eyjunum njóta ekki þeirra …
99% barna í flóttamannabúðum á grísku eyjunum njóta ekki þeirra mannréttinda að ganga í skóla. AFP

Átta eru í hverjum hópi og er tekið á móti þremur hópum á dag. Húsið er stutt frá þorpinu Moria en búðirnar eru í samnefndu þorpi. Hver hópur fær þarna tveggja tíma frí frá lífinu í flóttamannabúðunum.

Sigþrúður segir að það þurfi leyfi fyrir því að reka hjálparsamtök á Lesbos en fólk getur farið inn og út úr flóttamannabúðunum að vild. Yfirvöld fylgjast vel með því hvort þau sem sækja fólk þangað fari eftir öllum reglum, svo sem umferðarreglum og hvort fólk er í bílbeltum. Viðurlög við því að brjóta þær reglur eru þung, t.d. misstu ShowerPower bílinn sinn í þrjá mánuði af því að honum var ekið yfir óbrotna línu. Konurnar þurfa síðan oft að bíða lengi í biðröð eftir því að komast í hóp þeirra sem eru sóttar og það getur verið erfitt fyrir konur sem eru einar á flótta með börn.

Flóttafólk í Moria reynir að smíða sér kofa úr vörubrettum.
Flóttafólk í Moria reynir að smíða sér kofa úr vörubrettum. AFP

„Konurnar sögðu okkur frá því að þær stilltu sér upp í röðinni, kannski klukkan 1 um nóttina, til að komast daginn eftir. Aðeins 24 manneskjur komast á hverjum degi í hús ShowerPower en þetta er eitt af þeim fáu lífsgæðum sem fólk í flóttamannabúðum fær að upplifa,“ segir Sigþrúður.

Sigþrúður segir að sjálfboðaliðar eins og hún búi í húsinu og á morgnana pakki þeir saman dótinu sínu og húsinu sé breytt í baðhús (hamman).

Spurð út í hvort einhver tengsl hafi myndast við konurnar sem koma í baðhúsið segir Sigþrúður það vera. „Ótrúlegt en satt þá myndast tengsl en þau vara eðlilega stutt. Við gátum yfirleitt ekki talað saman og það rennsli af fólki í gegn allan daginn. Þannig að það mynduðust tengsl sem er kannski klisjukennt að segja en er satt. Áður en ég fór sá ég það ekki fyrir mér heldur frekar að þarna gætu konur komið og þvegið sér í friði og fengið að borða á meðan við hugsuðum um börnin. Síðan fengju þær hrein nærföt, sokka og skó o.fl. Ég taldi allt annað sem sagt er, um samstöðu og hlýjuna, vera eitthvað aukalega en þetta er það sem skiptir máli. Svo sá ég að það sem skipti konurnar líka máli var að horft var á þær sem manneskjur og þær nutu hlýju,“ segir Sigþrúður.

AFP

„Ég áttaði mig á að smáatriði eins og að hjálpa þeim með hárið og annað skiptir ótrúlega miklu máli. Þessi mennska, að vera konur saman, myndar stað og stund kvenna. Ég hafði heyrt aðra segja að hópurinn væri annar þegar hann færi aftur til Moria en þegar hann kæmi til okkar en tók lítið mark á því. En þau voru öðruvísi þegar þau fóru. Komu hikandi og vissu ekki hvað þær ættu að gera. Þegar þær fóru voru þær miklu öruggari með sig og já allt öðruvísi en við komuna,“ segir Sigþrúður.

Horft yfir Moria á Lesbos.
Horft yfir Moria á Lesbos. AFP

Í desember sagði Boris Cheshirkov, talsmaður UNHCR í Grikklandi, að aðeins 1% þeirra 12 þúsund flóttabarna sem væru í flóttamannabúðum á grísku eyjunum gengju í skóla. 

„Börnin eru örvæntingarfull. Þau þurfa eðlilegt líf og að vera í skólastofu,“ sagði Cheshirkov. „Aðgengi að menntun er stórt vandamál, ekki síst á eyjunum.“  

Cheshirkov segir að flóttamannabúðirnar séu hannaðar til að hýsa börn í stuttan tíma en raunveruleikinn sé annar og mörg þeirra dvelji þar mánuðum saman.

UNHCR og sjálfstætt starfandi mannúðarsamtök (NGO) vinna saman að því að reyna að bæta þar úr og gera það sem í þeirra valdi stendur að tryggja að börnin fái að minnsta kosti einhverja tungumálakennslu.

Cheshirkov tók sem dæmi fjölskyldu frá Sýrlandi sem byggði sjálf timburkofa með þaki úr plasti. „Þau fóru frá Sýrlandi fyrir fjórum mánuðum þegar hús þeirra var eyðilagt. Börnin þeirra þrjú hafa aldrei gengið í skóla þar sem þau voru ekki nógu gömul til að ganga í skóla í Sýrlandi. Nú þegar þau eru í Grikklandi og komin á skólaaldur vill faðir þeirra að þau fari í skóla en þau geta það ekki.“

AFP

Læknar án landamæra taka í svipaðan streng og segja mikla hættu á sjálfskaða og sjálfsvígum meðal barna og ungmenna sem búa í yfirfullum flóttamannabúðum við skelfilegar aðstæður. 

Sigþrúður segir að það séu einmitt börnin sem sitja helst eftir í huga hennar eftir sjálfboðastarfið á Lesbos. Til að mynda fötluð börn sem hefðu með réttu átt að vera í öðrum flóttamannabúðum (Kara Tepe) en Moria en því miður eru allar búðir yfirfullar á Lesbos. Sama á við um fylgdarlaus börn og konur sem eru einar með börn sem eiga að vera á sérstökum svæðum í Moria en eru það ekki lengur vegna þess fjölda sem þar dvelur. 

Ungir menn reyna að búa sér til skjól fyrir vetrarkuldanum …
Ungir menn reyna að búa sér til skjól fyrir vetrarkuldanum á Lesbos. AFP

„Í Moria er staðan nú sú að lítil tjöld, sem yfirleitt er nánast tjaldað til einnar nætur, eru orðin að heimili fólks vikum og mánuðum saman að vetrarlagi. Dýnur og teppi eru löngu uppurin og stór hjálparsamtök, Attika, sem eru þau samtök á Lesbos sem safna búnaði fyrir flóttafólk, fötum og öðru fyrir samtök, koma þeim áfram til fólks í búðunum. Þessi samtök eru nánast hætt að treysta sér inn í Moria vegna þess að neyðin er svo skelfileg hjá mörgum og ekki til nóg fyrir alla — konur, karla og börn. Slík vörudreifing gæti jafnvel komið af stað uppþotum meðal íbúanna,“ segir Sigþrúður og bendir á að börnin í Moria eru berfætt á náttfötum í vetrarkulda og sofa í óupphituðum tjöldum og hreinlætisaðstaðan er nánast engin. 

AFP

Til þess að koma nauðsynjum til fólksins í Moria komu samtökin sér nýverið fyrir á fótboltavelli rétt hjá Moria-búðunum þar sem fólk gat komið og fengið aðstoð, segir Sigþrúður. Þetta hefur gefið góða raun en þar er horft til þess að konur og börn fá aðstoð. Karlmenn fá sama og enga aðstoð hjá hjálparsamtökum á Lesbos líkt og víðar og segir Sigþrúður það oft þannig að þeir vilji að konur og börn hafi forgang. Þeir þurfi minna á hjálp að halda að þeirra sögn.

Frá Moria í vetur.
Frá Moria í vetur. AFP

Í nóvember kynntu grísk stjórnvöld aðgerðir sem áttu meðal annars, eins og hér sagði að framan, að miða að því að flytja um 20 þúsund flóttamenn frá grísku eyjunum til meginlandsins í byrjun árs. Jafnframt var sagt að þrem­ur flótta­manna­búðum yrði lokað á Les­bos, Chi­os og Samos og nýjar byggðar í staðinn.

Ekkert hefur orðið af þessum fyrirætlunum og ekkert sem bendir til að þetta sé að ganga eftir. Stefnt er að því að loka móttökubúðum á Lesbos sem eru norðarlega á eyjunni og flestir koma að landi, segir Sigþrúður en þar hefur fólk fengið þurr föt til að fara í og eitthvað að borða.

Brauð bakað úti í Moria.
Brauð bakað úti í Moria. AFP

Fréttateymi á vegum Al Jazeera-fréttastofunnar var nýverið á Lesbos og í umfjöllun þess kom fram að yfir 140 langveik börn í Moria-búðunum þurfi lífsnauðsynlega á læknisaðstoð að halda. Meðal þeirra er Mohammed en hann er á þriðja ári. Hann hefur búið í Moria í fjóra mánuði við lífshættuleg skilyrði og takmarkaðan aðgang að heilbrigðisþjónustu. Hann er fyrirburi og er með vatnshöfuð (það er óeðlilega aukningu á heila- og mænuvökva í höfði sem veldur því að höfuðið verður mjög stórt og sérkennilega lagað og hefur oft andlegan vanþroska í för með sér). Þau eru fjögur í fjölskyldunni. Foreldrar með tvö börn, Mohammed og eins árs gömul stúlka. Þau búa í litlu tjaldi í ólífulundinum. Þau komu hingað frá Tyrklandi eftir að hafa flúið frá Kabúl í Afganistan. 

Horft yfir Moria-búðirnar þar sem 19 þúsund manns búa en …
Horft yfir Moria-búðirnar þar sem 19 þúsund manns búa en rými er fyrir tæplega 3 þúsund. AFP

„Næturnar eru erfiðar,“ segir móðir hans. „Hann kvartar mikið um höfuðverk þannig að við sofum á vöktum til að fylgjast með honum. Ég hef miklar áhyggjur af honum.“

Hún bætir við að henni sé tjáð að mikilvægt sé að hann sé hreinn en hún geti ekki ímyndað sér hvernig hún eigi að fara að því þarna. „Við getum ekki þvegið honum á hverju degi. Það er kalt í veðri og vatnið er það líka.“

Hún segist skilja að sjúkrahúsið geti ekki annast hann því þar er svo margt veikt fólk. „Sonur minn er veikur en þau eru þegar með of mörg veik börn þannig að þau hafa ekki getu til annast þau öll. Ég vil bara að hann sé einhvers staðar þar sem honum er ekki kalt og ég get þvegið honum og annast hann.“

AFP

Í júlí í fyrra afturkallaði gríska ríkisstjórnin aðgengi hælisleitenda og þeirra sem eru óskráðir inn í landið að heilbrigðisþjónustu. Þetta þýðir að 55 þúsund manns eru án heilbrigðisþjónustu samkvæmt upplýsingum frá Læknum án landamæra. Á Lesbos eru ekki einu sinni sjúkrahús sem geta sinnt langveikum börnum. 

ShowperPower-samtökin fjármagna starfsemi sína einkum með frjálsum framlögum frá einstaklingum. Þau eru með sterka bakhjarla í Hollandi og standa því vel að vígi, segir Sigþrúður. Hún segir að þau hafi áhuga á að útvíkka sitt starf og að koma upp öðru sambærilegu húsi fyrir konur og því þriðja fyrir karla. Það skorti ekki fjármagn til þess heldur húsnæði en húsnæðisskortur er á Lesbos.

Fólk reynir að verða sér úti um eldivið til þess …
Fólk reynir að verða sér úti um eldivið til þess að hlýja sér og elda mat. AFP

Tók það ekki á að horfa á eftir konum, sem fá tækifæri til þess að upplifa mannlega reisn í tvær klukkustundir, þurfa að fara aftur í flóttamannabúðir sem lýst er sem helvíti á jörð?

„Ég er oft spurð að því hvort þetta hafi ekki verið erfitt og tekið á og ég svara því oft til að það sé ekki ég sem gangi í gegnum þessar hörmungar en um leið að það geri þeim ekki verr að ég sé þarna. Í stóra samhenginu er það þannig að maður breytir engu. Hvorki ástandinu í Afganistan né vilja Evrópulanda til að taka við fólki. Ég get gert þessa tvo tíma þannig að konunum líði betur og þær geti baðað sig undir heitu vatni sem er alls ekki sjálfgefið. Að þær fyndu að þær væru velkomnar. Þetta var erfitt, ég viðurkenni það alveg. Ekki síst fyrstu þrjá dagana þegar fyrsti hópurinn kom í hús á morgnana. Ísjökulköld úr tjöldunum eftir nóttina,“ segir hún og bætir við að svo hafi þetta vanist og hún aðallega hugsað um að nýta tímann sem best við að gera fólki lífið bærilegra. „Að gera sitt allra besta í sinni allra minnstu smæð,“ eins og Sigþrúður orðar það.

Spurð um viðhorf íbúa Lesbos til flóttafólksins segist Sigþrúður sennilega ekki rétta manneskjan til að svara þeirri spurningu þar sem flestir þeirra sem hún hitti koma að stuðningi við flóttafólki. Aðrir sem hún ræddi við, svo sem leigubílstjórar, voru mjög skilningsríkir og sorgmæddir yfir því að ástandið væri svona.

AFP

„Eins eru bæjarbúar í Moria, sem er yndislegur lítill bær, afar sorgmæddir yfir því orði sem Moria hefur fengið á sig. Að fólk fái nánast óbragð í munninn við að segja Moria. Ég reyni í huganum að setja þetta í samhengi við Ísland en á Lesbos búa um 80 þúsund manns og þar eru 20 þúsund flóttamenn. Ef við myndum setja sambærilegt dæmi upp á Íslandi er ég ekki viss um að svo væri. Að fólk myndi sýna sömu samúð og mannúð og íbúar Lesbos. Íbúarnir þar eru yndislegir og vildu allt fyrir okkur gera,“ segir hún þótt eflaust séu dæmi um annað. 

AFP

Sigþrúður segir að það sé mjög gefandi að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi sem þessu og hún á ekki von á öðru en að hún muni gera þetta aftur. Hún bendir áhugasömum um að kynna sér vel starf hjálparsamtaka og dvelja lengur en hún gerði í síðasta mánuði.

Yfir jól og áramót og köldustu vetrarmánuðina vanti yfirleitt sjálfboðaliða til starfa því neyðin fer ekki í jólafrí á sama tíma og starfsemi samtaka sem byggja á starfi sjálfboðaliða er mun minni á þeim tíma en yfir sumartímann vegna skorts á sjálfboðaliðum. Sigþrúður segir að það sé líka fínt að dvelja jafnvel skemur ef annað er ekki í boði – og sumum finnst það betra alla vega í fyrsta skiptið, segir Sigþrúður Guðmundsdóttir. 

Sigþrúður Guðmundsdóttir á von á því að hún eigi eftir …
Sigþrúður Guðmundsdóttir á von á því að hún eigi eftir að fara aftur í svipað sjálfboðastarf og það sem hún sinnti á Lesbos í janúar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Frétt mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert