Hvernig hefur þeim vegnað í lífinu?

Muhammed Khan Balouch og foreldrar hans voru ekki send úr …
Muhammed Khan Balouch og foreldrar hans voru ekki send úr landi á mánudag líkt og til stóð eftir að dómsmálaráðherra ákvað að stytta hámarkstíma málsmeðferðar. mbl.is/Hallur Már

Íslensk yfirvöld vísuðu 371 barni burt frá Íslandi á tímabilinu 13. mars 2013 til 10. apríl 2019 eða á 6 árum. Að meðaltali var 62 börnum á ári vísað burt, að meðaltali 5 börnum á mánuði, skrifar Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG og varaformaður flóttamannanefndar Evrópuráðsþingsins, á Facebook.

„Fjórum fylgdarlausum börnum var vísað burt frá Íslandi á þessu tímabili - eitthvað sem er fullkomlega óskiljanlegt og ómannúðlegt. Hvar eru þessi börn í dag? Hvernig hefur þeim vegnað í lífinu?“ spyr Rósa Björk.

Hún fjallar einnig um tanngreiningar á börnum eða unglingum til að skera úr um aldur þeirra svo yfirvöld geti úrskurðað hvort þau eigi rétt á aðstoð eða ekki.

„Af hverju er þeim ekki bara trúað? Og þó svo að það muni einu eða tveimur árum hvort þau séu 18 ára? Getum við ekki bara tekið þeim opnum örmum og boðið börnum aðstoð og hjálp?

Frumvarp um alþjóðlega vernd og brottvísunartilskipun hefur verið sýnt í samráðsgátt sem þýðir t.d. að fólki er vísað mun hraðar og með mun ómannúðlegri hætti en nú til dæmis til Grikklands án þess að kanna aðstæður sem fólk stendur frammi fyrir þar. Aðstæður flóttafólks í Grikklandi hafa verið harðlega gagnrýndar af alþjóðlegum mannúðarstofnunum og samtökum, líka aðstæður fólks sem hefur fengið þar formlega stöðu hælisleitenda.

Við handveljum fólk í gegnum kvótaflóttamannasamkomulög og við Íslendingar gerum vel við það fólk, en hvað um hin? “Hvernig ætlum við að hafa þetta?”  spyr hún.

Hún segir að stytting málsmeðferðartíma barnafjölskyldna úr 18 mánuðum niður í 16 sé einfaldlega plástur. „Við getum heldur ekki endalaust verið að bregðast bara við þegar einstaka tilvik fólks rata í fjölmiðla eða vekja mikla samúð almennings og gera svo ekkert þess á milli. Rúmlega 19.000 undirskriftir fólks um allt land til stuðnings fjölskyldunni frá Pakistan sýndu svart á hvítu að það er almennur vilji til að sýna miklu meiri mannúð þegar kemur að móttöku barna og fjölskyldna sem til okkar leita eftir alþjóðlegri vernd.

Við eigum að hlusta þegar almenningur talar og sýnir enn og aftur í verki að mannúðin verður að vera í algjörum forgangi þegar um meðferð útlendingamála er að ræða. Það eru líka skýr skilaboð til lausnar á þeim tilvikum þar sem um ræðir líf fólks á flótta sem fáir vita af og ekki rata í fjölmiðla eða hreyfa við fólki.

Við sem setjum lög í landinu verðum að fara að taka ákvarðanir um heildarstefnu og sýn byggða á mannúð, manngæsku og náungakærleika en ekki byggða á ótta og hræðslu. Samfélög eru nefnilega metin út frá því hvernig þau koma fram við þau sem minnst mega sín,“ skrifar Rósa Björk. 


mbl.is