Aukinn viðbúnaður hjá Gæslunni

Varðskipið Þór.
Varðskipið Þór. Ljósmynd/Guðmundur Birkir Agnarsson

Landhelgisgæslan er með aukinn viðbúnað vegna óveðursins sem gengur yfir landið í nótt og á morgun.

Varðskipið Þór hélt frá Reykjavík klukkan 15 í dag og heldur á Vestfirði. Alla jafna er eitt varðskip á sjó hverju sinni en vegna veðursins var ákveðið að áhöfnin á varðskipinu Tý væri í viðbragðsstöðu í Reykjavík. Einnig eru tvær þyrlur til taks auk tveggja þyrluáhafna ef á þarf að halda, samkvæmt tilkynningu frá Gæslunni.

Þá hvetur Landhelgisgæslan eigendur og umsjónarmenn skipa og báta að huga að þeim vegna óveðursins. Auk þess bendir Gæslan á að öldu- og vindáhlaðandi, samfara þeim lága loftþrýstingi sem spáð er, geti bætt talsvert við sjávarhæð í höfnum umfram það sem útreiknaðar sjávarfallatöflur gefa til kynna.

Þór og Týr í Reykjavíkurhöfn.
Þór og Týr í Reykjavíkurhöfn. Ljósmynd/Guðmundur St. Valdimarsson
mbl.is