Vegagerðin undirbýr lokanir vega

Vegagerðin beinir því til vegfarenda að vegum verður víða lokað …
Vegagerðin beinir því til vegfarenda að vegum verður víða lokað á morgun. Mynd úr safni. mbl.is/Hari

Vegagerðin bendir vegfarendum á að búast megi við víðtækum vegalokunum um land allt á morgun. Óvissustigi almannavarnar hefur verið lýst yfir vegna óveðursins sem skellur á landinu í nótt og stendur yfir fram eftir morgundegi.  

Vegfarendur eru hvattir til að fylgjast náið með veðurspá og upplýsingum frá Vegagerðinni. Upplýsingasíminn er 1777. Endanleg ákvörðun um lokun og síðan opnun aftur er tekin í hverju tilviki fyrir sig.

Reiknað er með að allar helstu leiðir frá höfuðborgarsvæðinu loki í nótt og verði lokaðar fram yfir hádegi á morgun, föstudag. Áætlað er að Hellisheiði, Þrengslin, Sandskeið, Mosfellsheiði, Lyngdalsheiði, Kjalarnes, Hafnarfjall, Reykjanesbraut, Grindarvíkurvegur og Suðurstrandavegi verði lokað upp úr miðnætti og verði fram til klukkan 15 á morgun. 

Á Suðurlandi verður veginum við Hvolsvöll og austur til Víkur líklega lokað frá klukkan þrjú í nótt og fram til klukkan 14 á morgun. Svipað er upp á teningnum á veginum frá Vík og austur til Hornafjarðar sem verður lokað frá klukkan sex til 14 á morgun.  

Á Austurlandi verður Fjarðarheiði, Mývatns- og Möðrudalsöræfi lokuð frá klukkan sex í fyrramálið fram undir laugardagsmorgun. 

Á öðrum stöðum á landinu er búist við að lokanir fjallvega standi lengur yfir eins og á Norðurlandi. Áætlað er að Öxnadalsheiði loki klukkan sex í fyrramálið og verði fram til 8 á laugardagsmorgun. Holtavörðuheiði verður lokað klukkan 4 í nótt en ekki er ljóst hvenær hún verður opnuð.  

Sjá nánar hér á vef Vegagerðarinnar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert