Hefðum ekki viljað hafa 150.000 manns á ferðinni

Björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu höfðu í nógu að snúast í morgun. …
Björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu höfðu í nógu að snúast í morgun. Hér eru björgunarsveitarmenn að störfum í Hafnarfirði. mbl.is/Eggert

Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir að full ástæða hafi verið til að gefa út rauða veðurviðvörun á höfuðborgarsvæðinu í morgun og hvetja fólk til þess að halda sig heima.

Einhverjir hafa viðrað þær skoðanir sínar að viðbúnaðurinn í borginni hafi verið of mikill og blaðamönnum mbl.is hafa borist skilaboð frá lesendum þess efnis að um „óþarfa forsjárhyggju“ yfirvalda hafi verið að ræða, en höfuðborgarsvæðið lá í hálfgerðum dvala í morgun á meðan veðrið gekk yfir.

„Það er væntanlega fólk sem býr í skjóli fyrir austanáttinni sem finnst það. Ekki gleyma því að Kjalarnes er á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Elín Björk, innt eftir viðbrögðum við þessu. „Það er búið að kalla björgunarsveitir mjög mikið til í efri byggðirnar, í Smárahverfið í Kópavogi, Urriðaholt í Garðabæ og bara mjög víða,“ bætir hún við.

Veðurfræðingarnir Elín Björk Jónasdóttir (t.v.) og Helga Ívarsdóttir (t.h.) að …
Veðurfræðingarnir Elín Björk Jónasdóttir (t.v.) og Helga Ívarsdóttir (t.h.) að störfum. Elín segir að við hefðum alls ekki viljað hafa 150.000 manns úti á götum höfuðborgarsvæðisins í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þessi áhrif sem hafa orðið af þessu veðri, þú getur ímyndað þér hvernig þetta hefði orðið ef það hefðu verið 150.000 manns á leiðinni til vinnu með þakplötur fljúgandi, bílhúdd að fjúka upp og annað slíkt. Við hefðum ekki viljað það. Einhversstaðar fuku klæðningar af grunnskólum, svo ég held að það hafi nú verið ágætt að þeir voru ekki fullsetnir,“ segir Elín.

Búist var við meiri snjókomu

„Við settum út upplýsingar í gær um að ákveðin hverfi yrðu í skjóli fyrir austanáttinni og við sjáum ekki annað en að það hafi staðist,“ segir Elín.

En var ekki líka búist við meiri úrkomu?

„Jú, spáin í gær gerði ráð fyrir svolítið meiri snjókomu. Það var miklu meiri hríð uppi í efri byggðunum, en vestarlega í borginni snjóaði ekki jafn mikið og við óttuðumst í gær,“ segir Elín, en mesta óvissan var einmitt um það, hversu mikið myndi snjóa með veðrinu á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert