„Var hrædd og vissi ekkert hvað var að gerast“

Í nótt fauk hluti af þaki á fjölbýlishúsi við Jörfagrund á Kjalarnesi. Hanna Sigurrós Helgadóttir býr í íbúðinni á efri hæðinni þar sem þakið skemmdist. Í samtali við mbl.is segir hún að þar sem veðrið sé enn brjálað og fólk vogi sér varla út sé erfitt að segja til um nákvæmar skemmdir. Rétt eftir að mbl.is ræddi við hana fauk önnur plata af þakinu og út í garð við húsið.

Getur enn verið í íbúðinni

Hanna segir að björgunarsveitarfólk hafi komið og strengt strappa utan um geymsluna hjá henni og upp á þak. Hún viti að öðru leyti lítið um stöðu mála. Hún segir að gríðarleg læti hafi verið í alla nótt og hún hafi ekkert getað sofið. „Ég var hrædd og vissi ekkert hvað var að gerast og heyrði bara rosaleg læti,“ segir Hanna. Það var þó ekki fyrr en hún sá myndir frá nágrönnunum sem sýndu að hluti þaksins var fokinn af sem hún vissi hvað hafði nákvæmlega hafði gerst.

Þakið á fjölbýlishúsinu fór illa í veðrinu í nótt. Björgunarsveitir …
Þakið á fjölbýlishúsinu fór illa í veðrinu í nótt. Björgunarsveitir reyndu að festa hluta þess, en á ellefta tímanum fauk aftur plata af þakinu. Ljósmynd/Ásta Jónína

Hún segist enn geta verið í íbúðinni, það sé ekki opið út þótt plöturnar séu farnar af, en auðvitað séu lætin gríðarleg. Hanna segir að hún ætli að heyra í Neyðarlínunni og björgunarsveitum til að athuga með stöðuna og hvort hægt sé að koma í veg fyrir meira tjón, en veðrið er enn mjög slæmt á Kjalarnesi og vindur þar um 26 m/s og hviður í 40 m/s samkvæmt mælum Vegagerðarinnar.

Önnur þakplata fauk af fyrir skömmu

Stuttu eftir að mbl.is heyrði í Hönnu fauk önnur þakplata af þakinu, en Steinunn B. Gröndal, sem býr í neðri íbúðinni, segir að platan hafi fokið og endað út í garðinum. „Ég er búin að búa hér í 10 ár, en þetta er versta veðrið sem ég hef upplifað, alveg skelfileg nótt,“ segir hún við mbl.is.

Hún segir að hávaðinn í veðrinu hafi verið mikill og hún hafi haldið að rúðurnar myndu springa inn þegar mesti ofsinn gekk yfir. Seint í nótt hafi hún svo heyrt mikinn hvell. „Ég hélt að eitthvað hefði fokið á húsið, hvellurinn var svo mikill.“ Hana hafi þó ekki grunað að þakið væri farið af. Eins og hjá mörgum öðrum íbúum Kjalarness varð lítið um svefn hjá Steinunni. Hún býr ein og segist hafa verið skelfingu lostin í alla nótt.

Rúður hafa brotnaði í veðurofsanum.
Rúður hafa brotnaði í veðurofsanum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skemmdir á bílum

Nokkuð hefur verið um skemmdir á bifreiðum á Kjalarnesi í veðrinu. Í sömu götu eru meðal annars allavega þrír bílar þar sem rúður hafa brotnað og þá hafa rúður farið í íbúðum í nágrenninu. Sjálf segist Steinunn hafa fengið afhendan nýjan bíl í gær og var hún hrædd um að hann hafi skemmst í veðrinu. Af myndum nágranna að dæma virðist hann hins vegar óskemmdur. Þá hefur mbl.is heyrt af því að tré hafi rifnað upp í veðrinu á Kjalarnesi í nótt.

Þakplata fauk af húsinu nú á ellefta tímanum, en fyrr …
Þakplata fauk af húsinu nú á ellefta tímanum, en fyrr í nótt hafði hluti þaksins farið af. Ljósmynd/Steinunn Gröndal
Rúður hafa brotnað í bílum í götunni út af veðrinu.
Rúður hafa brotnað í bílum í götunni út af veðrinu. Ljósmynd/Ásta Jónína
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert