Efling og borgin funda aftur á morgun

Frá fundinum í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag.
Frá fundinum í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fundi samninganefnda Eflingar og Reykjavíkurborgar hjá ríkissáttasemjara lauk á tólfta tímanum í dag og boðað hefur verið til annars fundar á morgun, miðvikudag.

Samkvæmt tilkynningu frá Eflingu lagði samninganefnd stéttarfélagsins fram „útfærðar hugmyndir að lausn deilunnar“ á fundi sínum í dag. Samninganefndin ætlar að hafa trúnað um þær hugmyndir að svo stöddu.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður stéttarfélagsins sagði í stuttu samtali við mbl.is að hún ætli ekki að tjá sig um það sem fram fór á fundinum umfram það sem fram komi í tilkynningu Eflingar, nema jú, um það að annar fundur í deilunni verði á morgun.

Í tilkynningu Eflingar segir að samninganefnd þeirra hafi fundað stíft síðustu þrjá daga ásamt starfsfólki og trúnaðarmönnum til að útfæra og ná sátt um tillögur og að þetta sé í þriðja sinn sem samninganefnd stéttarfélagsins hafi lagt fram tillögur sínar til lausnar á deilunni fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert