Handspritt komið í alla vagna

Vagnstjórar hjá Strætó eru komnir með handspritt og sprittklúta í …
Vagnstjórar hjá Strætó eru komnir með handspritt og sprittklúta í vagnana. mbl.is/Hari

Strætó hefur pantað inn aukið magn hreinsiefna til þess að takast á við það að mögulega þurfi að sótthreinsa strætisvagna fyrirtækisins reglulega vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Nú þegar er komið handspritt í alla strætisvagna, sem hugsað er fyrir bílstjórana, sem hafa aukinheldur fengið sprittklúta til þess að þurrka af snertiflötum í vinnuumhverfi sínu.

Þetta segir Sigríður Harðardóttir mannauðsstjóri Strætó í samtali við mbl.is og leggur áherslu á að fyrirtækið fylgi öllum þeim fyrirmælum sem berast frá sóttvarnalækni. Starfsmönnum eru reglulega sendar áminningar um að þvo sér vel um hendurnar og nota handspritt yfir daginn.

Tuttugu og sex hafa nú greinst með smit af völdum nýju kórónuveirunnar hér á landi. Allt smitaðist fólkið erlendis og ekki eru enn nein merki um smit á milli manna hér á landi. Yfirvöld telja þó einungis tímaspursmál þar til slíkt tilfelli kemur upp.

Mikil vinna að sótthreinsa allan flotann reglulega

Sigríður segir, spurð um hvort fyrirhugað sé að sótthreinsa alla strætisvagna fyrirtækisins þegar smit fara að berast á milli fólks hér á landi, að það verði skoðað þegar þar að kemur. Það væri „gríðarlega mikil vinna“ að dauðhreinsa alla 120 strætisvagnana sem eru í akstri reglulega.

„Ég get ekki sagt til um hvort sú staða kæmi upp, en það yrði sérstaklega skoðað og metið. Við förum svo bara eftir öllum fyrirmælum frá sóttvarnalækni og ef það kæmi til að hann myndi beina því til aðila, ferðaþjónustuaðila og annarra sem eru í samgöngum, að það þyrfti að sótthreinsa samgöngutækin, hvort sem það yrðu rútur, strætóar, flugvélar eða bílar, þá yrði að sjálfsögðu farið í það verkefni,“ segir Sigríður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert