Þarf að drepa mig til að ég tapi

Ragnar við Super Cubflugvél flugklúbbsins Þyts. Hún var lengi mikilvægt …
Ragnar við Super Cubflugvél flugklúbbsins Þyts. Hún var lengi mikilvægt vinnutæki. Ljósmynd/Sölvi Axelsson

 „Við litum á okkur eins og her og þegar eitthvað gerðist kom aldrei annað til greina en að vera í fremstu víglínu. Ég hef flogið meira og minna allt flug fyrir Moggann á minni eigin vél, til dæmis í öll eldgos síðustu fjörutíu árin. Ég hef líka myndað þau nokkur, skipströndin. Stundum vorum við eina vélin í loftinu.“

Þetta segir Ragnar Axelsson ljósmyndari, RAX, en hann sagði starfi sínu á Morgunblaðinu lausu eftir 46 ár um síðustu mánaðamót. Ragnar lenti í margvíslegum ævintýrum við vinnu sína fyrir Morgunblaðið enda metnaður blaðsins að vera jafnan með menn á vettvangi stórviðburða.

RAX segir nú skilið við Morgunblaðið eftir 46 ára starf.
RAX segir nú skilið við Morgunblaðið eftir 46 ára starf. mbl.is/Kristinn Ingvarsson


Þú hefur lagt þig í lífsháska!

„Já, nokkrum sinnum. Ég man sérstaklega eftir þremur verulega erfiðum flugferðum í kolbrjáluðu veðri. Í eitt skipti þurftum við að opna hliðarrúðu til að sjá út. Eftir á að hyggja var það kannski óðs manns æði að leggja af stað en maður bara gerði það. Til að ná myndinni. Fréttinni. Sennilega liggur þessi dirfska í eðlinu, ég þoli nefnilega ekki að tapa. Spurðu bara börnin mín; þau hafa aldrei unnið mig í Svarta-Pétri.“

Hann brosir.

Ragnar segir að þrengt hafi að fréttamönnum á vettvangi í seinni tíð enda „má varla koma gola, þá er öllum vegum lokað. Núorðið er allt harðbannað. Það er áhyggjuefni.“

Ragnar segir sama liðsanda hafa gilt á Morgunblaðinu og í fótboltanum, sem hann stundaði með Fylki í gamla daga. Samkeppnin á blaðamarkaði var hörð, við Tímann, Þjóðviljann, Alþýðublaðið, Vísi og Dagblaðið, og allir spiluðu fyrir liðið. „Á þessum tíma var hollusta við sitt íþróttafélag mikil og sama máli gilti um blaðið sem maður vann hjá. Öll stóðum við saman í baráttunni. Að sjá blaðið á hverjum morgni var eins og að skora mark – enda þótt auðvitað væri ekki tækifæri til þess að setj'ann í skeytin inn á hverjum degi.“

Ragnar og Árni Johnsen blaðamaður á eintrénungi á eldfjallinu Krakatá, …
Ragnar og Árni Johnsen blaðamaður á eintrénungi á eldfjallinu Krakatá, sem sprakk í loft upp árið 1887.


Metnaður og lífsgleði

Ragnar segir andrúmsloftið í Aðalstrætinu hafa verið engu líkt og hann hlakkaði til að mæta í vinnuna á hverjum morgni. „Ef ég ætti að velja tvö orð til að lýsa stemningunni niðri á gamla Mogga þá yrðu það metnaður og lífsgleði. Menn tóku starfið mjög alvarlega og voru staðráðnir í að gera sitt besta en létu það aldrei bitna á gleðinni í þessari hörðu samkeppni.“

Og áherslur voru skýrar. „Matthías Johannessen ritstjóri sagði einhvern tíma að okkur væri afhentur spegill til að spegla samtímann. En ekki okkur sjálf. Fréttin væri aðalatriðið, blaðamaðurinn bara auðmjúkur þjónn að baki. Í þessu er mikil viska fólgin og eftir þessu hef ég alla tíð reynt að fara.“

Á hafísnum við Thule, í nyrstu byggðum heims. Betra er …
Á hafísnum við Thule, í nyrstu byggðum heims. Betra er að vera vel klæddur í allt að fjörutíu stiga frosti.


Ragnar snýr sér nú alfarið að lífsverki sínu, að mynda mannlífið á norðurslóðum.

„Ég byrjaði að mynda norðurslóðir á undan flestum öðrum en núna eru sumir komnir fram úr mér í þeim skilningi að þeir hafa haft meiri tíma og meiri peninga til að sinna þessu starfi. Sumir synda jafnvel í sjóðum sem ég hef engan aðgang að. Af einhverjum ástæðum styrkja Íslendingar ekki ljósmyndun; sjálfur hef ég sótt fjórum sinnum um starfslaun listamanna, til að geta einbeitt mér að því sem ég tel skipta máli, en alltaf verið synjað.“

Hann þagnar stutta stund. Horfir svo í augun á mér.

„Það þarf hins vegar að drepa mig til þess að ég tapi þessum leik. Ég ætla mér að ljúka þessu lífsverki mínu með stæl og þess vegna stekk ég út í laugina núna. Innst inni veit ég nefnilega að ég get gert þetta betur en aðrir sem hafa verið að mynda þarna. Flestir eru bara að mynda fljótandi ísjaka; ég er að mynda fólkið. Það á skilið tækifæri og von í framtíðinni.“

Forsíða með frægri ljósmynd eftir RAX eftir að snjóflóðið féll …
Forsíða með frægri ljósmynd eftir RAX eftir að snjóflóðið féll á Flateyri 1995.


Með sting í hjarta

Þess vegna segir hann nú skilið við sitt gamla blað. „Ég geng út af Morgunblaðinu með sting í hjarta. Ég hef verið meira þarna en heima hjá mér undanfarin 44 ár og þykir ofboðslega vænt um blaðið. Ég hef fórnað öllu fyrir Morgunblaðið og er stoltur af mínu framlagi gegnum tíðina. Get með góðri samvisku sagt að ég hafi gefið allt í þau verkefni sem mér voru falin eða ég tók mér fyrir hendur. Ég kveð góða vini með söknuði en maður veit aldrei hvað maður á langt eftir í starfi, kannski fimmtán til tuttugu ár, þannig að nú set ég önnur verkefni á oddinn.“

Hver er staða fréttaljósmyndarinnar í samtímanum?

„Hún á undir högg að sækja, svo vægt sé til orða tekið. Margir bestu fréttamenn sögunnar hafa verið ljósmyndarar; menn þora að vera þar sem byssukúlur fljúga til að ná sínum myndum. Nægir þar að nefna James Nachtwey og Don McCullin. Maður sér ekki flottari greinar en eftir þá. Að ekki sé talað um Mary Ellen Mark. Efni af þessu tagi sést varla lengur og ég óttast að fréttaljósmyndin sem miðill sé í raun alveg búin. Mikið þarf að gerast til að hún nái sama flugi og við vorum á þegar best lét. Ég get ekki séð að það sé neinn skilningur á þessu lengur; í stað þess að vera aðalatriðið, þegar það á við, er ljósmyndin alltof oft orðin uppfylling í blöðum. Það er þyngra en tárum taki að horfa á starfið sem ég elskaði út af lífinu hreinlega hverfa. Það er ekki lengur til. Bókin og sýningar eru að taka við.“

Ítarlega er rætt við Ragnar Axelsson í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Sigurbáran strandar við suðurströnd Íslands árið 1981.
Sigurbáran strandar við suðurströnd Íslands árið 1981.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »