Gefa út leiðbeiningar fyrir viðkvæmustu hópana

Frá blaðamannafundi sem haldinn var í húsakynnum almannavarna í Skógarhlíð …
Frá blaðamannafundi sem haldinn var í húsakynnum almannavarna í Skógarhlíð í dag. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Aðgerðir sem nú eru að fara í gang vegna kórónuveiru eru að beina sjónum að viðkvæmustu hópunum í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að þeir smitist. Er þá aðallega um að ræða eldra fólk og þá sem eru með ákveðna undirliggjandi sjúkdóma. Svo virðist sem líkurnar á því að veikjast alvarlega af COVID-19 af völdum kórónuveiru aukist upp úr fimmtugu. Í dag voru birtar leiðbeiningar fyrir þessa einstaklinga á heimasíðu landlæknis

Ekki er vitað nákvæmlega hversu mikið aukin hættan er ef undirliggjandi vandamál eru til staðar, en fólk sem þjáist af eftirfarandi sjúkdómum virðist vera í meiri hættu en aðrir á að veikjast alvarlega: hár blóðþrýstingur/hjartasjúkdómar, sykursýki, langvinn lungnateppa, langvinn nýrnabilun og krabbamein. Þá virðast einstaklingar sem reykja vera í aukinni hættu á alvarlegum sjúkdómi en ekki er hægt að útiloka að þar sé í raun langvinn lungnateppa undirliggjandi vandamál sem eykur alvarleika sjúkdómsins. Á þessari stundu er hins vegar óvíst hvort ónæmisbælandi meðferð (s.s. sterar, methotrexate eða líftæknilyf) auki líkur á alvarlegri kórónuveirusýkingu.

Börn á öllum aldri hafa smitast af veirunni en mörg smituð börn hafa fundist við leit í kringum önnur tilfelli en ekki vegna eigin veikinda. Lítið virðist vera um alvarlegar sýkingar meðal barna en upplýsingar um sjúkdómsgang hjá börnum eru takmarkaðar enn sem komið er. Þá hafa engar upplýsingar komið fram um sérstaka hættu fyrir barnshafandi konur eða hættu á fylgikvillum meðgöngu vegna COVID-19. Engar sérstakar ráðleggingar eru því í gildi fyrir barnshafandi konur sem eru almennt hraustar, aðeins almenn smitgát og hreinlæti.

Mikilvægustu upplýsingar sem komið hafa fram í þeim greinum er að veiran virðist ekki berast til fósturs á síðasta þriðjungi meðgöngu. Þegar sýking varð á fyrsta eða öðrum þriðjungi meðgöngu er meðgöngu ekki enn lokið þar sem aðeins eru þrír mánuðir frá því veiran kom upp.

Þeir sem eiga aðstandendur sem eru með undirliggjandi sjúkdóma eða aldraðir eru hvattir til þess að lesa sérstakar leiðbeiningar til þessara hópa og miðla þeim til þeirra. Sérstaklega í þeim tilfellum þar sem ekki er um vel tölvulæst fólk að ræða. Í leiðbeiningum kemur fram hvað skuli forðast og til hvaða ráðstafana sé hægt að grípa til að draga úr smithættu.

Leiðbeiningarnar má nálgast hér í heild sinni.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Kórónuveiran

30. mars 2020 kl. 14:16
1086
hafa
smitast
157
hafa
náð sér
30
liggja á
spítala
2
eru
látnir