„Stór áfangi“ að stytta vinnuvikuna

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. mbl.is/​Hari

„Þessi krafa okkar um styttingu vinnuvikunnar var sett í forgang í þessum kjarasamningaviðræðum og hefur verið í forgangi til margra ára. Við lítum á það sem stóran áfanga,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, um samning bæjarstarfsmanna við sveitarfélög sem undirritaður var fyrir miðnætti, við mbl.is í Karphúsinu. 

Samningurinn hljóðar meðal annars upp á 90 þúsund króna hækkun á kjarasamningstímabilinu, 30 daga orlof og styttingu vinnuvikunnar. 

Sonja segir stóran áfanga hafa náðst með styttingu vinnuvikunnar. Vinnuvikan verður allt að 36 stundir hjá dagvinnufólki sem felst í hagræðingu í vinnuskipulagi. Fólki er umbunað betur sem vinnur fjölbreyttar vaktir og vinnuvikan gæti farið niður í 32 stundir á viku. 

Góður gangur í ýmsum viðræðum

Launahækkanir eru í samræmi við lífskjarasamninginn. Til viðbótar er svokallaður Félagsmálasjóður. Í hann geta starfsmenn sótt í allt að 80 þúsund krónur. Samningurinn verður kynntur á næstu tveimur vikum og eftir það fer hann í atkvæðagreiðslu. 

Áfram er fundað stíft í Karphúsinu. 

Góður gangur er í viðræðum hjá Sameyki og Reykjavíkurborg, að sögn Sonju. Sömu sögu er að segja um viðræður Sjúkraliðafélags Íslands við samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þessi félög eiga einnig í samtali við ríkið „það sem er nýjast í þeim viðræðum er að þau hefja aftur viðræður við ríkið eftir tiltölulega langt hlé á þó fáum klukkutímum,“ segir Sonja fremur létt í bragði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert