Mun hafa talsverð áhrif á Icelandair

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri.
Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri. mbl.is/Eggert

Ferðamálastjóri segir að ferðabannið sem Bandaríkin settu á frá Evrópu vegna kórónuveirunnar muni hafa talsverð áhrif á rekstur Icelandair. Talsvert af flugi verði fellt niður en að mikilvægt sé að halda góðum samgöngum við Evrópu.

Hann kveðst ekki hafa búist við því að ferðabannið yrði sett á. „Ég held að það hafi ekki margir verið að reikna með þessu en það er sífellt eitthvað sem er að koma manni á óvart. Maður gerir ráð fyrir að það sé verið að gera þetta með heill fólks að leiðarljósi,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri.

Bannið nær til allra þeirra sem hafa verið á Schengen-svæðinu síðustu tvær vikur. Skarphéðinn bendir á að Bandaríkjamenn séu ríflega þriðjungur af þeim ferðamönnum sem hingað koma. „Þó að við séum á lágönn og að þetta sé ástand sem varir í fáeinar vikur þá mun þetta hafa áhrif.“

Hann segir að áhrifin yrðu meiri á annarri árstíð því máli skipti að ná góðu sumri. „En á þessum tíma sem þetta nær til, seinni part mars og fyrri part apríl, þá er þetta tími sem er ekki mjög sterkur í ferðaþjónustu hvort sem er.“

Erlendir ferðamenn á Íslandi.
Erlendir ferðamenn á Íslandi. mbl.is/Eggert

Bandaríkin mikilvægasti markaðurinn

Bandaríkjamenn eru fjölmennasti hópurinn sem ferðast til Íslands og segir Skarphéðinn Bandaríkin vera mikilvægasta markaðinn þó svo þeir dvelji skemur hérlendis er aðrir. Hann telur ekki ástæðu til að ætla að ferðabannið dragist á langinn því allar spár geri ráð fyrir að veiran verði í rénun talsvert fyrir sumarið.

Hvað aðkomu stjórnvalda varðar segir hann að þau meti stöðuna á hverjum tíma í ljósi aðstæðna og að vissulega sé þetta breyting á þeim aðstæðum sem hafa legið fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert