Starfsmaður Salaskóla með kórónuveiruna

Hafsteinn Karlsson er skólastjóri Salaskóla. Starfsmaður skólans greindist í gær …
Hafsteinn Karlsson er skólastjóri Salaskóla. Starfsmaður skólans greindist í gær með kórónuveiruna. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Starfsmaður Salaskóla í Kópavogi greindist í gær með kórónuveiruna. Hann sat fund með starfsfólki unglingadeildar fimmtudaginn 12. mars og þeir sem sátu fundinn eru nú komnir í sóttkví til 26. mars að beiðni sóttvarnalæknis.

Alls eru 19 starfsmenn skólans í sóttkví.

Þetta kemur fram í tölvupósti sem Hafsteinn Karlsson, skólastjóri Salaskóla, sendi foreldrum nemenda í morgun.

Hafsteinn bendir á að vegna verkfalls starfsmanna Eflingar hefur ekkert skólastarf verið í skólanum frá 11. mars og nemendur því ekki í skólanum.

Kennarar unglingadeildar skólans munu sinna fjarkennslu á næstunni og vera í samskiptum við nemendur í gegnum tölvur.

Hafsteinn segir allt óvíst varðandi aðra kennslu en lausn í kjaraviðræðum Eflingar við samninganefnd sveitarfélaga virðist ekki í sjónmáli. 

„Við höfum sótt um undanþágur en þeim hefur verið hafnað hingað til. Við vonum auðvitað að við fáum heimild til að opna skólann fyrir yngstu nemendurna, alla vega til að sjá um neyðarþjónustu skv. kröfu sóttvarnalæknis. Höldum ykkur upplýstum,“ skrifar Hafsteinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert