Fyrirtæki sem þurfa aðstoð teljast í tugum prósenta

Bjarni Benediktsson segir að hlutfall fyrirtækja sem þurfi aðstoð hlaupi …
Bjarni Benediktsson segir að hlutfall fyrirtækja sem þurfi aðstoð hlaupi á tugum prósenta. Hann segir ríkissjóð enn eiga nægt púður til að grípa til frekari aðgerða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkisstjórnin kynnti í dag aðgerðir sínar til að bregðast við efnahagslegum áhrifum af útbreiðslu kórónuveirunnar. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir ljóst að það muni taka langan tíma að endurheimta fyrri stöðu. Ekki sé enn komið niður á botninn og stöðuna þurfi að endurmeta reglulega á næstu mánuðum. Hann segir ríkissjóð og hið opinbera hins vegar eiga meira púður ef koma þurfi til frekari aðgerða.

Bjarni sagði í samtali við mbl.is eftir fundinn að samkomubannið hefði mikil efnahagsleg áhrif hér innanlands. Þá ylli lokun landamæra og röskun á för fólks einnig krísu. „Við vonumst til að þetta spálíkan sem hefur verið birt  gefi vísbendingu um hvenær við finnum botninn hér innanlands. En alveg ljóst að það mun taka langan tíma að endurheima fyrri stöðu.“

„Við höfum ekki fundið botninn og það er dálítið eftir í það“

Aðgerðunum sem kynntar voru í dag sé hins vegar ætlað að hraða þessu ferli að sögn Bjarna. Hann tekur þó fram að óvissan sé mikil og það viðurkennist að stöðuna þurfi að endurmeta reglulega á næstu mánuðum. „Það er ekki gott að segja hvenær við höfum fundið viðspyrnuna, en við höfum ekki fundið botninn og það er dálítið eftir í það.“

Fyrr í vikunni sagði Bjarni að ljóst væri að afkoma ríkissjóðs yrði neikvæð um 100 milljarða á þessu ári og líklega rúmlega það. „Það er augljóst miðað við grunnstöðuna og þumalputtaregla sýnir manni að við förum augljóslega í meiri halla en 100 milljarða. Ég ætla engu að spá hvort við færum mögulega í 200 milljarða, það er ekki tímabært, slík er óvissan,“ segir hann spurður hvort útlit sé fyrir enn verri afkomu.

Mikill meirihluti ferðaþjónustufyrirtækja mun þurfa aðstoð

Bjarni segir aðstæður hér þó hagstæðar til að takast á við áfall sem þetta. „Það eru allar aðstæður innanlands fyrir hendi til að við fáum kröftuga viðspyrnu þegar faraldrinum lýkur og til að við fáum kröftugan hagvöxt á næsta ári. Ég vonast til þess, en það mun taka tíma að endurheimta landsframleiðsluna,“ segir Bjarni.

Aðgerðir ríkisins til að koma til móts við erfiðleika fyrirtækja eru meðal annars hlutastarfaleiðin, frestun skattgreiðslna upp á 75 milljarða og ábyrgð ríkisins á brúarlán fyrirtækja í rekstrarvanda. Spurður út í hversu stór hluti fyrirtækja í landinu muni þurfa aðstoð segir Bjarni það stóran hluta. „Það telst í tugum prósenta.“ Nefnir hann sérstaklega ferðaþjónustuna sem dæmi. „Ég geri ráð fyrir að mikill meirihluti fyrirtækja í ferðaþjónustu muni þurfa aðstoð, en svo vitum við að áhrifin teygja sig  miklu miklu víðar,“ segir hann og bætir við: „Það er ljóst að við værum ekki að fara í aðgerðir upp á 230 milljarða ef þetta væri afmarkað við ákveðna tegund starfsemi.“

„Engin leið að fyrirbyggja vanda allra

En þrátt fyrir aðgerðir stjórnvalda, má þá gera ráð fyrir að það komi til fjöldagjaldþrota hér á landi? Bjarni segir að aðstoðinni sé fyrst og fremst beint til fyrirtækja sem þurfa hjálp vegna þeirra aðstæðna sem hafa skapast. „Fyrirtæki sem voru í hallarekstri í aðdraganda þessarar stöðu geta ekki fyrirfram gert ráð fyrir fyrirgreiðslu núna,“ segir hann. „En já, því miður munu margir lenda í erfiðleikum þrátt fyrir aðstoð stjórnvalda. Það er engin leið að fyrirbyggja vanda allra við þessar fordæmalausu aðstæður.“

„Já við eigum meira púður“

Í gær tilkynntu sveitarfélög aðgerðir sínar og í dag settu stjórnvöld verðmiða á aðgerðir sínar. Ljóst er að um umtalsverðar upphæðir er að ræða. En ef viðspyrnan dregst á langinn, er þá til meira púður? „Ég trúi því, já ég trúi því,“ svarar Bjarni. Bendir hann á gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans, en hann er um 930 milljarðar. Segir Bjarni jafnframt að skuldastaða hins opinbera sé mjög sterk og sterkari en flestra OECD-ríkjanna.

„En við erum háð ýmsu, háð ytri aðstæðum og öðrum forsendum sem við höfum ekki stjórn á. En já við eigum meira púður,“ segir hann. Þá vísar Bjarni til þess að kjör hins opinbera séu mun hagstæðari nú en til dæmis eftir fjármálahrunið. Þá hafi aðeins staðið til boða afarkjör á neyðarlánum. „Sú staða er ekki uppi núna.“

Fyrirgera ekki rétti sínum til aðstoðar með uppsögnum

Forsvarsfólki ríkisstjórnarinnar sem kynnti aðgerðapakkann í dag varð tíðrætt um mikilvægi þess að viðhalda störfum í gegnum þetta áfall með tilheyrandi öryggi fyrir almenning. Spurður hvort fyrirtæki sem fari í fjöldauppsagnir fyrirgeri þar með rétti sínum til að fá aðstoð segir Bjarni svo ekki vera. „Nei þau eru ekki að gera það. Það er þeirra ákvörðun að taka. En við hvetjum þau til þess að skoða alla möguleika aðra sem við bjóðum upp á til að halda fólki í starfi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert