Sjúklingar sem leggjast inn á Landspítalann til meðferðar vegna COVID-19-sjúkdómsins fá bæði malaríulyf og sýklalyf sem saman eiga meðal annars að draga úr lífvænleika veirunnar í lungnafrumum. Þetta segir Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, í samtali við mbl.is.
„Það eru gögn sem styðja það. Malaríulyf sem er kallað Chloroquine og afleiða af því sem er kallað Hydroxychloroquine eða Plaquenil og sýklalyf sem er kallað Zithromax. Við erum að nota þetta saman á sjúklinga sem leggjast inn vegna COVID-19-veikinda,“ segir Már og bætir við:
„Það er ekki alveg 100% ljóst hvernig þetta virkar en það eru tilgátur um að þetta dragi úr lífvænleika veirunnar í lungnafrumunum og það dragi einnig úr ónæmissvari gegn veirunni í lungunum. Þannig að bati fólks sem er á þessum tveimur lyfjum saman verður hraðari eftir því sem næst verður komist.“
Már bætir því við að ekki þurfi allir að fara á þessi lyf enda fái þorri þeirra sem fá kórónuveirusýkinguna mild einkenni. Plaquenil er einungis til í takmörkuðu magni og er nauðsynlegt öðrum mikilvægum sjúklingahópi, fólki sem er með rauða úlfa eða aðra gigtarsjúkdóma.
„Við þurfum því að gæta okkar að því leyti að það verði nóg til fyrir alla. Þess vegna höfum við lagt til og beint þeim tilmælum til landlæknis að draga úr ávísunum á þessum lyfjum þannig að við eigum fyrir alla í þessum tveimur hópum,“ útskýrir Már.
Læknar á smitsjúkdómadeildinni hafa einnig önnur gigtarlyf sem hafa áhrif á ónæmissvar í lungum sem heitir Tocilzumab. Nóg til er af því lyfi og mun það verða notað ef talið er að sú meðferð eigi við. Þá er flensulyfið Favipiravir, sem markaðssett hefur verið í Japan, til skoðunar.
Sömuleiðis er verið að skoða veirulyf sem var upphaflega þróað gegn ebólu og verður óskað eftir því ef fólk kemst á ákveðið stig í sjúkdómnum. Það er ekki til hérna á Íslandi og er eingöngu notað í formlegum rannsóknum eða í því sem er kallað „compassionate use“ tekur Már fram og bætir við:
„Samstarfsfólk mitt hefur sett sig í samband við lyfjafyrirtæki og við höfum það þá vonandi aðgengilegt ef til þess kemur.“
Hann segir mjög vel og mikið fylgst með þróun mála þegar kemur að lyfjanotkun gegn COVID-19 og að teymi innan smitsjúkdómadeildarinnar vinni við það að fylgjast með nýjustu rannsóknum svo að læknar á deildinni og aðrir séu með nýjustu upplýsingar hverju sinni.
„Ef ný gögn um lyf koma fram þá beinum við þeim tilmælum til yfirvalda að tryggja nægar birgðir af því. Það er mjög mikið að gerast í þessu,“ segir hann að lokum.