Sveitarfélögin höfnuðu samningi án þess að skoða

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar. mbl.is/Hari

„Við lögðum fram tilboð í morgun sem var hafnað alfarið. Það má segja að samninganefndin [sveitarfélaganna] hafi toppað sig í ömurlegum vinnubrögðum með því að hafna þessu strax án frekari umræðu,“ segir Sólveig Jónsdóttir formaður Eflingar.

Fundi Eflingar og Samninganefndar sveitarfélaga lauk fyrir hádegi í dag í húskynnum ríkissáttasemjara. Samninganefnd Eflingar ákvað Efling að gera hlé á verkfallsaðgerðum sínum á meðan kórónuveirufaraldurinn gengur yfir en að þeim loknum er boðað til beittari aðgerða.  

Sólveig segir að tilboðið sem Efling lagði fram hafi verið betur útfært og aðlagað að sveitarfélögunum en það sem var áður á borðinu. Ekki var einu sinni gerð tilraun til að gera hlé á samningaviðræðum og skoða tilboðið svo hægt væri að setjast niður aftur og ræða málin, að sögn Sólveigar. 

Samningar félagsmanna Eflingar í Kópavogi, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ, Hveragerði og sveitarfélaginu Ölfus hafa verið lausir í tæpt ár eða fra 1. apríl. 

Spurð hvort félagsmenn hafi þrýst á að verkfallsaðgerðum yrði frestað segir hún að svo sé ekki. „Það eina sem þeir hafa þrýst á er að fá sambærilegan kjarasamning og hefur verið gerður við ríkið og Reykjavíkurborg,“ útskýrir hún. Hlé var gert á verkföllum í ljósi aðstæðna í samfélaginu.

Hátt launaður bæjarstjóri axlar ekki ábyrgð

Hún furðar sig á því hvers vegna ekki sé hægt að gera sambærilegan samning við sveitarfélögin og hafa verið gerð við ríki og Reykjavíkurborg. Sólveig hefur margoft reynt að ná samtali við stærsta viðsemjandann inna sveitarfélaganna, bæjarstjóra Kópavogs, Ármann Kr. Einarsson en án árangurs. Hann hafi ítrekað neitað að ræða við sig, útskýrir hún. Á sama tíma furðar hún sig á því að hann skuli vera einn launahæst bæjarstóri landsins og einnig í heimi en há laun eru jafnan réttlætt með vísan í mikla ábyrgð, að sögn Sólveigar. Eins og sakir standa sé sá bæjarstjóri ekki að axla neina ábyrgð heldur þvert á móti.

„Það eina sem við fórum fram á er að lægstu laun þessarar láglaunastéttar séu leiðrétt,“ segir Sólveig. Hún bætir við að í raun hafi þessi framkoma samninganefndar sveitarfélaganna ekki komið sér mikið á óvart í ljósi alls sem á undan er gengið. „Við skiljum ekki þessi forhertu vinnubrögð sem markast öll af hroka og þvermóðsku. Það er ekkert hlustað heldur er ætlað að troða upp á fólk samningum sem hentar bara þeim,“ segir Sólveig.

mbl.is

Bloggað um fréttina