Telji bannið aðeins eiga við um aðra

Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ.
Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ. Ljósmynd/UMFÍ

„Við höfum fengið vísbendingar um að íþróttafólk félaga sé að stunda íþróttaæfingar úti í litlum hópum þrátt fyrir strangt samkomubann. Það er ekki til fyrirmyndar. Ég hreinlega undrast að fólk haldi að bannið eigi við um aðra en ekki það sjálft.“

Þetta segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Ungmennafélags Íslands.

Félagið ásamt Íþróttasambandi Íslands sendi fyrir viku út tilkynningu til sambandsaðila og íþróttafélaga um að hlé yrði gert á öllu íþrótta- og æskulýðsstarfi til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar.

Sumir telji sig undanþegna banninu

Jafnt skuli ganga yfir börn og fullorðna, samkvæmt leiðbeinandi viðmiðum sem heilbrigðisráðuneytið, í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneyti, sendi frá sér vegna samkomubannsins.

„Við leggjum áherslu við stjórnendur í íþróttahreyfingunni að allt íþróttastarfi eigi að fella niður, bæði barna og fullorðinna, boltaíþróttir, hestaíþróttir, dans og aðrar greinar,“ er haft eftir Auði Ingu í tilkynningu sem send var út nú í kvöld.

Hún segir ljóst að sumir telji sig undanþegna banninu.

„Bæði hefur fólk hringt í okkur í þjónustumiðstöð UMFÍ og sent okkur myndir af æfingahópum. Það er miður enda mikilvægt að við snúum öll bökum saman í baráttunni til að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar. Við verðum að gera þetta saman.“

Sett til að verja líf

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, ítrekaði samkomubannið á blaðamannafundi í dag og sagði margar undanþágubeiðnir hafa borist.

„Þetta samkomubann er sett til að verja líf. Ekki sækja um undanþágur. Það kemur betri tíð.“

mbl.is

Kórónuveiran

28. maí 2020 kl. 13:00
3
virk
smit
1792
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir