Tilkynningum til barnaverndar snarfækkað

Skert skólahald og aukin einangrun barna á heimilum eru talin …
Skert skólahald og aukin einangrun barna á heimilum eru talin ástæða fækkunar tilkynninga til barnaverndarnefnda síðustu vikur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ástæða er til að beina þeim tilmælum til almennings að vera vel á verði gagnvart vanlíðan barna og koma tilkynningum til barnaverndar ef talin er ástæða til. Þetta segir Heiða Björg Pálmadóttir, forstjóri Barnaverndarstofu.

Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis, vekur athygli á því í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag að tilkynningum til barnaverndar hafi snarfækkað undanfarnar tvær vikur, eftir að samkomubann var sett á og skólahald skert.

Heiða staðfestir þetta. 

„Við erum farin að sjá fyrstu vísbendingar um það,“ segir hún. 27 barnaverndarnefndir eru starfandi í landinu, en tölur um tilkynningar eru teknar saman mánaðarlega. Nákvæmar tölur yfir fjölda tilkynninga í mars liggja því ekki fyrir, en Heiða segir að formenn nefnda hafi sagt henni frá fækkuninni. Undir þetta tók Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, á blaðamannafundi almannavarna í dag.

Heiða Björg Pálmadóttir.
Heiða Björg Pálmadóttir. mbl.is/Árni Sæberg

„Það sem hefur breyst er að börn eru minna í skólanum og því mun einangraðri á heimilum sínum en áður,“ segir Heiða og bætir við að flestar tilkynningar til nefndarinnar berist í gegnum skólakerfið. Þótt skólahald í grunn- og leikskólum sé skert, sækja flest börn engu að síður skóla að einhverju marki. Aðspurð segir hún kennara almennt vera vel á verði, en ástæða sé til að hvetja þá til að vera sérstaklega vakandi fyrir því nú.

Einfaldast er að hafa samband við Neyðarlínuna í síma 112 til að koma tilkynningum til skila, segir Heiða og bætir við að nafnleynd sé heitið ef þess er óskað.

Yfir 11.000 tilkynningar bárust barnaverndarnefndum landsins í fyrra og hafa þær aldrei verið fleiri. „Það virðist alltaf vera fjölgun á milli ára en nú fjölgaði þeim um 10% [milli 2018 og 2019].“ Segir hún að það geti skýrst af breyttum vinnubrögðum barnaverndar við skráningu, því að fólk sé duglegra en áður að tilkynna mál, auk þess sem lögregluumdæmi og félagsþjónusta hafi víða um land ráðist í átak gegn heimilisofbeldi sem leiði í auknum mæli til tilkynninga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert