Aðgerðir hertar á Vestfjörðum

Fyrsta smitið kom upp í Bolungarvík í gær og grunur …
Fyrsta smitið kom upp í Bolungarvík í gær og grunur er um fleiri. mbl.is/Sigurður Bogi

Aðgerðastjórn almannavarna á Vestfjörðum hefur í samráði við sóttvarnalækni og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra ákveðið að bregðast við COVID-19 í Bolungarvík, Hnífsdal og á Ísafirði með hertum aðgerðum.

Frá þessu greinir lögreglan á Vestfjörðum á Facebook.

Aðgerðirnar kveða á um eftirfarandi:

• Leik- og grunnskólum í Bolungarvík og á Ísafirði verði lokað frá og með morgundeginum 2. apríl 2020. Þó skulu börn á forgangslistum fá vistun á leikskólum og 1. og 2. bekkjum grunnskóla.
• Samkomubann verði miðað við 5 manns (þetta á þó ekki við um fjölskyldur sem búa á sama heimili).
• Fjöldi viðskiptavina í stærri verslunum (>150 fermetrar) sé að hámarki 30 á hverjum tíma.
• Hvatt er til þess að fólk haldi sig heima, haldi samskiptafjarlægð, takmarki ferðir og fylgi leiðbeiningum yfirvalda.
Þeim vinnustöðum eða hópum sem telja sig þurfa undanþágu er bent á að sækja um slíkt hjá heilbrigðisráðuneytinu.

Ákvörðunin tekur að svo stöddu ekki til Suðureyrar, Flateyrar, Þingeyrar eða Súðavíkur. Er það á grundvelli stöðu smitrakningar í dag. Áfram eru íbúar á þessum stöðum hvattir til að fylgja almennum reglum og leiðbeiningum.

Sex staðfest kórónuveirusmit hafa komið upp á Vestfjörðum og 151 er í sóttkví.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert