Ráðið styður sóttvarnalækni heilshugar

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sóttvarnaráð styður sóttvarnalækni í hans aðgerðum til að stöðva útbreiðslu kórónuveirunnar. Þetta er niðurstaða fundar ráðsins sem var haldinn í gær.

„Ráðið styður sóttvarnalækni heilshugar og það voru engar athugasemdir gerðar við það sem hann hefur verið að gera. Þetta var mjög góður fundur,“ segir Ólafur Guðlaugsson, formaður sóttvarnaráðs.

Ræddu um skólamál

Farið var yfir nokkur mál með sóttvarnalækni á fundinum. Meðal annars var rætt um skólahald en Vilhjálmur Arason heimilislæknir, sem situr í ráðinu, hafði velt fyrir sér hvort halda skuli skólum og leikskólum opnum á meðan faraldurinn gengur yfir. „Vilhjálmur gerði ekki athugasemdir við þá uppsetningu sem sóttvarnalæknir hefur haft. Hann vildi einfaldlega ræða það,“ útskýrir Ólafur.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason á blaðamannafundi.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason á blaðamannafundi. Ljósmynd/Lögreglan

Funda fljótlega aftur

Eftir páska verður skoðað hvernig staðan verður vegna kórónuveirunnar og þá verður ákveðið hvenær ráðið hittist næst. „Það verður fljótlega aftur, það er margt í gangi,“ segir hann.

Ráðið hefur starfað frá árinu 1997 og hingað til hefur ekki verið talin þörf á því að birta fundargerðina opinberlega. Aðspurður segir Ólafur að það komi vel til greina í ljósi aðstæðna en ráðherra og sóttvarnalæknir þurfi að ákveða það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert