Björtu hliðarnar

Logi Bergmann
Logi Bergmann

Kannski er ég að ímynda mér þetta en mér finnst minni reiði á Facebook, minna yfirlæti á Twitter og klárlega færri rassamyndir frá útlöndum á Instagram.

Kannski er það þannig að erfiðar aðstæður dragi fram það besta í fólki. Ég er ekki frá því að maður geti fundið það á þessum síðustu og furðulegustu tímum. Að baki liggur svo sem engin vísindaleg rannsókn en samfélagsmiðlarnir, sem eru jú það sem tengir okkur helst núna, eru heldur bjartari, vinalegri og ákveðnari í að tapa ekki gleðinni.

Kannski er ég að ímynda mér þetta en mér finnst minni reiði á Facebook, minna yfirlæti á Twitter og klárlega færri rassamyndir frá útlöndum á Instagram. Þess í stað er komin einhvers konar óskipulögð hreyfing sem reynir frekar að horfa á björtu hliðarnar.

Mögulega hefur kórónuveiran náð að þjappa okkur saman. Sem hlýtur að teljast merkilegt í ljósi þess að það er hreinlega búið að banna okkur að koma saman – líkamlega. Ég er samt ekki frá því að ég tali meira við fólk núna en ég gerði áður en þessi ósköp dundu yfir.

Við erum líka að læra ýmislegt. Veitingastaðir hafa þurft að loka veitingasölum en hafa brugðist við með því að senda heim eða bjóða fólki að sækja mat. Sem gerir það að verkum að margir fara oftar „út að borða“ en þeir gerðu.

En breytingarnar eru fleiri. Íþróttafréttamenn hafa breyst í sagnfræðinga, tónlistarmenn halda stofupartí og línulegt sjónvarpsáhorf er komið aftur með daglegum blaðamannafundum. Þar fer fremstur í flokki maður sem við kynntumst nýlega en höfum sem þjóð lýst yfir að við munum hlýða skilyrðislaust.

Í svona ástandi hafa líka komið fram orð sem við þekktum ekki áður og höfum jafnvel aldrei sagt. Nú getum við ekki hætt að nota þau. Orð á borð við sýnatökupinna, samkomubann, hjarðónæmi, veldisvöxt, sjálfklippingar og heimasóttkví.

Við höfum líka fengið nokkur ný orð í íslenskuna, sem voru ekki til og lýsa ástandi sem við höfum aldrei kynnst fyrr. Þau eiga það sameiginlegt að reyna að finna húmorinn við þessar erfiðu aðstæður. Það er sennilega rétt að útskýra einhver af þeim:

Pestapó – Borgari sem tekur að sér að fylgjast með því að aðrir haldi fjarlægð, sóttkví, einangrun og helstu varúðarráðstafanir.

Heimaferðalag – Að reyna að gera gott úr því að vera heima hjá sér.

Frostadamus – Sérfræðingur sem veit meira en allir sérfræðingarnir, jafnvel þótt hann hafi ekki menntun í tilteknu fagi.

Covidmágar – Menn sem hafa smitast af þeim sama.

Fjartí – Fjarpartí í myndsamtali.

Ef einhver hefði sagt mér að við myndum öll bíða spennt eftir að geta hlaðið niður forriti í símana okkar sem getur rakið ferðir okkar í smáatriðum, þá hefði ég sennilega sagt að nú væri fólk endanlega búið að missa það. En furðulegir tímar kalla á furðuleg viðbrögð.

Ég er bara ánægður á meðan þau felast í því að finna björtu hliðarnar á þessu öllu saman.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert