Grunur um annað smit á hjúkrunarheimilinu

Hjúkrunarheimilið Berg í Bolungarvík.
Hjúkrunarheimilið Berg í Bolungarvík.

Grunur leikur á um að fjórða COVID-19-smitið á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík sé komið upp eftir að annar íbúi fór að sýna einkenni. Hann er nú í einangrun.

Þrjú smit eru staðfest á hjúkrunarheimilinu og þetta er því fjórða, ef smit greinist. Þeir þrír sem eru smitaðir eru í einangrun á hjúkrunarheimilinu.

Sýni voru tekin hjá starfsfólki og íbúum í vikunni og send suður á veirufræðideild Landspítalans. Niðurstaðna er beðið en sjúkrahúsinu berast hundruð sýna daglega.

Sjö íbúar hjúkrunarheimilisins eru í sóttkví og mikill meirihluti starfsfólks. Þá er fjórðungur Bolvíkinga í sóttkví. Að sögn Gylfa Ólafssonar, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, eru smitin á hjúkrunarheimilinu „mikið áfall“. Hann segir einnig enn vanta hjúkrunarfræðinga vestur. Verið er að færa starfsfólk til um deildir og staði, auk þess sem borist hefur liðsauki úr bakvarðasveitum.

Fjöldi smitaðra í Bolungarvík var 15 í gær. Það er svipað og í Ísafjarðarbæ, en þar eru 18 staðfest smit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert