Fimmtán bakverðir og von á fleirum

Hjúkrunarheimilið Berg í Bolungarvík.
Hjúkrunarheimilið Berg í Bolungarvík.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á von á tíu liðsmönnum bakvarðasveitar heilbrigðiskerfisins með þyrlu Landhelgisgæslunnar síðar í dag. Þegar höfðu fimm úr bakvarðasveit hlaupið í skarðið á hjúkrunarheimilinu Bergi, þar sem meirihluti fastra starfsmanna er í einangrun eða sóttkví, auk þess sem starfsfólk af öðrum deildum heilbrigðisstofnunarinnar og sumarstarfsfólk hefur verið kallað inn.

Þetta segir Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, í samtali við mbl.is. Fjögur smit hafa verið staðfest meðal íbúa á Bergi og fimm meðal starfsfólks. Þá var í morgun tilkynnt um andlát íbúa af völdum COVID-19.

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.
Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Ljósmynd/Aðsend

Gylfi segir stöðuna þunga og að ljóst sé að mikið rask sé á starfsemi hjúkrunarheimilisins. „Það eru allir inni á herbergjunum sínum, það er ekki sama starfsfólk og fólk er vant og enginn samgangur á milli fólks. Þetta setur verulegan svip á heimilishaldið.“

Þá segir Gylfi að von sé á fleira fólki úr bakvarðasveit þegar líður á vikuna og að útlit sé fyrir að mönnun sleppi til í bili. „Við köllum þá eftir fleira fólk ef þörf krefur.“

Að lokum segir Gylfi að Vestfirðingar finni fyrir stuðningi alls staðar að. „Það hafa margir haft samband við okkur, meðal annars þingmenn, heilbrigðisráðherra og landlæknir, óskað okkur góðs gengis og boðið fram aðstoð sína. Það hefur verið sett af stað söfnunarátak til að kaupa tæki fyrir stofnunina og mikill hlýhugur, velvilji og samstarfsfýsi hjá öllum. Við finnum það mjög sterkt.“

Sjúkrahúsið á Ísafirði.
Sjúkrahúsið á Ísafirði. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is

Kórónuveiran

30. maí 2020 kl. 14:00
-1802
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir