Hafa flutt tíu manns í sjúkraflugi vegna COVID-19

Sjúkraflugvél Mýflugs á Ísafirði síðdegis í dag.
Sjúkraflugvél Mýflugs á Ísafirði síðdegis í dag. mbl.is/Ingvar Jakobsson

Flugfélagið Mýflug mun í kvöld fljúga með veikan mann í sjúkraflugi frá Ísafirði til Reykjavíkur.

Í kvöldfréttum Stöðvar tvö var greint frá því að um væri að ræða mann sem væri þungt haldinn af sjúkdómnum COVID-19 en hvorki Leifur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Mýflugs, né Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, gátu staðfest það. 

„Landhelgisgæslan var beðin að vera í viðbragðsstöðu vegna flugsins,“ segir Ásgeir.

Mýflug hefur flogið með tíu einstaklinga sem veikir voru af COVID-19 til Reykjavíkur síðan faraldurinn kom upp hérlendis, að sögn Leifs. Í slíkum flugferðum er gripið til sérstakra varúðarráðstafana en flugmenn flugvélanna koma ekki nálægt þeim veiku. Tvær sjúkraflugvélar eru nú staddar á Ísafirði.

mbl.is