Enginn Joe og Loksins á vellinum

Flug næstu daga er einkum til og frá London og …
Flug næstu daga er einkum til og frá London og Boston. Í dag lendir vél með 70 Íslendingum frá Alicante. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrjár flugvélar fóru í loftið frá Keflavíkurflugvelli í morgun og þrjár eru væntanlegar til lendingar síðar í dag. Ein þeirra er frá Alicante, en það er síðasta flugið frá Alicante til Íslands um ófyrirsjáanlega framtíð og verða um 70 Íslendingar innanborðs. Hinar tvær eru frá Boston og London.

Icelandair flýgur áfram fram og til baka til Boston og Lundúna næstu daga og slík flug eru áætluð áfram yfir páska, en staðan breytist hratt.

Það er fámennt á flugvellinum og fáir sem eiga þar leið um að gera sér glaðan dag, enda hefur líka ýmissi þjónustu þar verið lokað, svo sem Joe and the Juice og Loksins bar. Fríhöfnin er enn opin á leið út og við lendingu.

Isavia sagði upp 101 starfsmanni og bauð 37 lækkað starfshlutfall í lok mars. Fjögurra milljarða hlutafjáraukning af hálfu ríkisins frá því í gær gerir fyrirtækinu kleift að ráðast í framkvæmdir en við þær verður áætlaður fjöldi nýrra starfa 50-125 fyr­ir hvern mánuð fram á mitt ár 2021. Forstjóri opinbera hlutafélagsins sagði við ViðskiptaMoggann í dag að innviðaverkefnin myndu bæði felast í hönnunarverkefnum og framkvæmdarverkefnum, svo sem við byggingu tengibyggingar á milli norður- og suðurbyggingarinnar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert