215 milljóna átak gegn heimilisofbeldi

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Um 215 milljónum króna verður varið í átak gegn heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum með aukinni aðstoð og betri úrræðum í áfram­hald­andi efna­hagsaðgerðum rík­is­stjórn­ar­inn­ar vegna COVID-19.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu og sveitastjórnarráðherra kynnti þetta á blaðamannafundi vegna aðgerðanna í dag. Hann segir aðspurður að verið sé að takast á við heimilisofbeldi frá báðum hliðum, bæði með því að hvetja gerendur til að sækja sér hjálpar og með því að styrkja úrræði sem standa þolendum til boða. 

Heimilisofbeldi hefur aukist mikið að undanförnu en aukin einangrun vegna útbreiðslu kórónuveiru og samkomubanns er talin ástæða þess eins og áður hefur komið fram. 

„Þetta er eitt af því sem hefur komið í ljós að er að þróast í vonda átt og við vitum af fyrri kreppum að gerist,“ segir Sigurður Ingi í samtali við mbl.is.

Stuðningur við 1717 og Barnahús

„Bæði er verið að viðhalda vitundarvakningu hvað varðar heimilisofbeldi og hvað varðar ofbeldi gegn börnum. Þar er verið að setja pening inn í barnahús og stuðning við þær fjölskyldur sem lenda í þessu. Einnig er verið að styrkja þessi frjálsu félagasamtök sem vinna á þessu sviði. Það er verið að reyna að taka utan um þá sem eru þolendur og veita gerendunum aðstoð við að leita sér aðstoðar,“ segir Sigurður Ingi.

200 milljónum verður varið í stuðning við Barnahús og hjálparsíma Rauða krossins 1717. 15 milljónum króna verður varið í að styrkja samstarf lögreglu, félagsþjónustu og barnaverndar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert