Guðlaugur lagði til framkvæmdir í Helguvík

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir jákvætt að stefna að því …
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir jákvætt að stefna að því áfram að ráðast í uppbyggingu í Helguvík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lagði til á ráðherrafundi um ríkisfjármál fyrr í mánuðinum að uppbygging fyrir Atlantshafsbandalagið (NATO) í Helguvíkurhöfn yrði liður í auknum framkvæmdum hins opinbera á Suðurnesjum vegna áhrifa heimsfaraldursins. Tillaga Guðlaugs náði ekki fram að ganga og ákveðið var að ráðast í önnur verkefni, þar á meðal hlutafjáraukningu upp á fjóra milljarða fyrir Isavia.

Að sögn Guðlaugs hefðu framkvæmdirnar sem hann lagði til kostað um 235 milljónir á ári frá 2021 til 2025, samtals um 1175 milljónir á fimm árum. Hann segir í samtali við mbl.is að framkvæmdirnar hefðu fyrst og fremst snúið að stækkun hafnarinnar, svo hún gæti tekið við stærri skipum, olíuskipum fyrst og fremst.

Það verður ekki af þessum framkvæmdum um sinn, þó að bæði utanríkisráðherra og þeir sem reka hafnirnar séu áhugasamir um um þær. Sagt var frá því í Morgunblaðinu á mánudaginn að Reykjaneshafnir séu þegar með drög tilbúin að framkvæmdum á svæðinu. „Ég er meðvitaður um áhuga þessara aðila en á meðan staðan er eins og hún er, hefur ekki verið farið í formlegar viðræður af minni hálfu hvorki við mannvirkjasjóð bandalagsins né fulltrúa Reykjaneshafna eða sveitarstjórna á svæðinu,“ segir Guðlaugur.

Áfram stefnt að stækkun

Tillögur að framkvæmdum í Helguvík rötuðu ekki inn í pakka stjórnvalda að sinni en þær voru á meðal fjölmarga tillagna sem komu frá öðrum ráðuneytum og aðeins sumar þeirra náðu fram að ganga, að sögn Guðlaugs. Engu síður eru enn á dagskrá framkvæmdir á varnarsvæði bandalagsins á Keflavíkurflugvelli fyrir fleiri milljarða, sem Guðlaugur segir að geti skapað rúm 300 störf á næstu árum.

Helguvíkurhöfn er í eigu NATO og var vígð 1989. 150 …
Helguvíkurhöfn er í eigu NATO og var vígð 1989. 150 metra viðlegukantur á norðurbakkanum myndi gera lengstu skipum kleift að leggjast að bryggju. Ljósmynd/Reykjaneshafnir

Hann telur þó eftir sem áður jákvætt að stefna að stækkun Helguvíkurhafnar. Þá geti stærri olíuskip komið þangað, sem Guðlaugur segir umhverfisvænna því annars komi fleiri lítil, og sömuleiðis gætu herskip komið í Helguvík, sem ella væru í Reykjavík sem sumum er illa við.

Þar að auki segir Guðlaugur að uppbygging á svæðinu skili sér í innviðum sem flestir nýtast einnig í borgaralegum tilgangi. „Við höfum mjög lengi notið góðs af mannvirkjum bandalagsins hér á landi í borgaralegum tilgangi og það hefur ekkert breyst,“ segir Guðlaugur og vísar þar til flugbrautarkerfisins á Keflavíkurflugvelli, hafnaraðstöðunnar í Helguvík, ljósleiðarakerfi bandalagsins hér á landi og margs fleira.

mbl.is