Fyrirtæki standa frammi fyrir vali

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferða-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra segir fyrirtæki …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferða-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra segir fyrirtæki nú standa frammi fyrir valkostum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér finnst við vera á tímamótum núna, að fyrirtæki standa frammi fyrir þessum valkostum, þessum mismunandi leiðum og verða að taka ákvörðun í samræmi við sína stöðu,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferða-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, í samtali við mbl.is. Hún sér fram á mjög erfitt sumar í ferðaþjónustunni og er fyrir sitt leyti ekki á leiðinni í utanlandsferðir í ár. 

Fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir verulegu tekjutapi vegna kórónuveirufaraldursins, einkum fyrirtæki í ferðaþjónustu, mun nú bjóðast að sækja um stuðning úr ríkissjóði til að greiða uppsagnarfrest starfsfólks. Áfram verður hlutabótaleiðin í boði óbreytt út júní og sem nemur 50% hlutfalli út júlí og ágúst.

Á blaðamannafundi í hádeginu í dag var, til viðbótar við ofangreind úrræði, einnig boðuð „einföldun fjárhagslegrar endurskipulagningar.“ Sú einföldun þarf að sögn ferðamálaráðherra ekki að þýða hjálp við að fara í gjaldþrot, heldur felur í sér „skilvirkari útfærslu á greiðslustöðvun“. Með öðrum orðum, að fyrirtæki geti með þessari leið farið í eins konar pásu á meðan þetta ástand gengur yfir, en hugsanlega risið síðan upp úr öskunni.

„Við erum með þessari ráðstöfun að gefa skýrari svör til lengri tíma, bæði til þeirra sem þurfa að segja upp sínu fólki ef þau sjá ekki fram á að geta haft það í vinnu um nána framtíð og sömuleiðis erum við að framlengja leiðina fyrir þau sem trúa að það muni duga þeim,“ segir Þórdís.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra á fundinum …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra á fundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrirtæki komast í skjól, en óraunhæft að bjarga öllum

Þórdís kveðst sjá fyrir sér að með þessum hætti muni fyrirtæki geta greitt uppsagnarfrest starfsfólks síns ef það sér ekki fram á að geta haft það áfram í vinnu og að fyrirtækin geti í kjölfarið ráðist í fjárhagslega endurskipulagningu hjá sér, semsagt „komist í skjól“ eins og það er orðað í tilkynningu frá ríkisstjórninni.

„Við viljum gera það ferli skilvirkara og einfaldara og hraða því, til þess að eyða þeirri óvissu sem við erum stödd í. Það þýðir auðvitað að fyrirtækin standa frammi fyrir því að taka erfiðar ákvarðanir og sársaukafullar en það eru þá mismunandi leiðir fyrir fyrirtæki í mismunandi stöðu,“ segir Þórdís.

Eins og segir að ofan segir Þórdís þessar aðgerðir marka ákveðin tímamót, þar sem nú hafi fyrirtækin skýra valkosti. „Við höfum þó sagt áður, að það er óraunhæft að bjarga öllum fyrirtækjum,“ segir hún. 

Engir ferðamenn í sumar

Þórdís segir að í þessum aðgerðum felist „hreinn og klár“ stuðningur við fyrirtækin í landinu, einkum ferðaþjónustufyrirtækin, og að aðgerðirnar séu til þess fallnar að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot, enda ljóst að „vikurnar líða og þetta verður þyngra og þyngra og verkefnið verður stærra og stærra.“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Ásmundur Einar …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Ásmundur Einar Daðason á fundinum í dag. Fyrir aftan þau er Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ferðamálaráðherra telur ljóst að umferð ferðamanna um landið verði mjög takmörkuð í sumar. „Þetta sumar verða nánast engir ferðamenn hér að óbreyttu nema eitthvað margt gott gerist, þannig að þetta ár verður ofboðslega þungt,“ segir Þórdís.

„En við vonumst til að við séum komin á allt annan stað næsta sumar. Við sjáum fram á veginn og til sólar í því, að þá verðum við komin í einhvers konar uppbyggingu þá.“

Íslendingar fara að líkindum ekki til útlanda frekar en útlendingar komar til Íslands, og sjálf segist Þórdís aðspurð ekki munu skipuleggja utanlandsferðir í ár. „Nei. Ég hef ekki tekið neinar ákvarðanir um neinar útlandaferðir í ár. Ég ætla að nýta sumarið innanlands og gera það sem ég get til að sýna börnunum mínum okkar fallega land og styðja við atvinnulífið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert